Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:42:10 (7130)

2002-04-08 15:42:10# 127. lþ. 114.6 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÞBack (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Með þessum lögum er verið að heimila þau mestu óafturkræfu náttúruspjöll sem orðið hafa af mannavöldum í sögu landsins. Auk hinna fyrirsjáanlegu náttúruspjalla er líklegt að stór gróskumikil svæði breytist í örfoka land og óvíst er með öllu hvaða áhrif hækkun vatnsborðs Lagarfljóts hefur á búsetu við fljótið.

Kárahnjúkavirkjun er ekki sjálfbær orkuveita og við vísum allri hreinsun og uppgræðslu á svæðinu til afkomenda okkar. Þessi hönnun sem er sniðin að Noral-verkefninu svokallaða réttlætir hvorki hugsanlega arðsemi né byggðastyrkingu á Miðausturlandi. Því segi ég nei.