2002-04-09 22:18:11# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[22:18]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að halda því til haga að sjálfbær þróun sem er undirrótin að þeirri bókun sem hér er fjallað um byggir á þremur meginstoðum, hinni umhverfislegu, hinni félagslegu og hinni efnahagslegu. Þær stoðir þurfa allar að vera til staðar til að við getum fjallað um sjálfbæra þróun af alvöru. Og af því hæstv. ráðherra talar hér um einhverja skattpíningarstefnu sem hann ætli ekki að undirgangast, þá verð ég að benda honum á að samkvæmt Ríó-yfirlýsingunni og því ferli sem hefur verið í gangi síðan á ráðstefnunni í Ríó, þá hefur ein af meginreglunum verið sú að verð vöru þurfi að endurspegla allan kostnað sem til fellur við framleiðslu hennar og förgun. Ef álfyrirtæki þurfa að borga losunarheimildir, þá fellur kostnaðurinn auðvitað við þær losunarheimildir á vöruverðið. Ef vara mengar, þá er eðlilegt að fyrirtækin þurfi að borga fyrir förgun sem eyðir menguninni eða gangi þannig frá menguninni að hún sé engin eða svo gott sem engin.

Þegar íslensk stjórnvöld ætla sér að heimila stórfyrirtækjum að framleiða hér ál og blása gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið endurgjaldslaust, þá eru þau ekki að standa undir skuldbindingum sínum varðandi sjálfbæra þróun af því þau ætla sér ekki að láta verð vörunnar endurspegla allan kostnað sem eðlilegt er að til falli við framleiðslu vörunnar. Það sama á við varðandi meðgjöfina í Kárahnjúkavirkjun þar sem landið undir virkjunina kostar ekki nokkurn skapaðan hlut.