Aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:16:38 (7601)

2002-04-17 12:16:38# 127. lþ. 119.9 fundur 518. mál: #A aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:16]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir koma atvinnulífinu almennt til góða. En þegar við réðumst í þær fyrr á þessum vetri var sýnt fram á það með tölum frá Þjóðhagsstofnun að þær komu fyrst og fremst stórum fyrirtækjum á þéttbýlissvæði suðvesturhornsins til góða. Fyrirtæki úti á landi nutu þess ekki í jafnríkum mæli. Það er kannski aukaatriði málsins.

Hv. þm. Karl Matthíasson spyr hvort hæstv. ráðherra íhugi tilteknar aðgerðir í skattamálum til að rétta hlut landsbyggðarinnar. Ástæðan fyrir því er m.a. að í nefnd sem forsrh. setti á stofn var svona hugmyndum gefið undir fótinn. Ég skil það mætavel. Mörg rök eru fyrir því að þetta sé ekki æskileg leið. Um það er pólitískur ágreiningur. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra sagði að hann teldi að þetta stæðist ekki jafnræðisreglu og ég spyr hann: Hefur hann látið skoða það lagalega?