Verðlagsmál

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:44:06 (7609)

2002-04-17 12:44:06# 127. lþ. 119.95 fundur 508#B verðlagsmál# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:44]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hér fer fram. Ég gleðst yfir afar ábyrgri afstöðu ASÍ-manna og atvinnurekenda, og frumkvæði þeirra og ríkisstjórnarinnar í að draga úr verðbólgu með afar samstilltu átaki. Verkalýðsfélögin eins og reyndar mörg önnur frjáls félagasamtök eiga undir högg að sækja og ég fullyrði að við þetta frumkvæði ASÍ-manna hefur ímynd þeirra breyst til mikilla muna.

Þetta hefur vakið fólk og fyrirtæki til umhugsunar um verðlagsmál og verðmyndun vöru, og ekki að ástæðulausu þar sem ákveðin fákeppni ríkir í sölu, t.d. á matvörum. Margir hafa brugðist við af mikilli ábyrgð og sanngirni með samstillingu. Þetta vekur okkur auðvitað til umhugsunar um hverjar raunverulegar kjarabætur hins almenna launþega eru. Það er auðvitað lág verðbólga, stöðugleiki verðlags, hæfilega sterk staða íslensku krónunnar og það er alveg ljóst að það er nauðsynlegt að lækka vexti meira en orðið hefur hjá okkur. En við getum glaðst yfir því að böndum hefur verið komið á verðbólguna og við erum svo sannarlega á réttri leið við að ná verðbólgunni niður í 2%. Ég er þess fullviss að það tekst og enn og aftur gleðst ég yfir því að við getum unnið saman, þ.e. ríkisstjórnin, ASÍ-menn og atvinnurekendur, á jafnábyrgan hátt og gerst hefur í þessu máli.