Verðlagsmál

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:48:16 (7611)

2002-04-17 12:48:16# 127. lþ. 119.95 fundur 508#B verðlagsmál# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:48]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Því hljóta allir að fagna ef menn fá fang á verðbólgunni að kveða hana niður. En því miður eru þær þensluástæður sem legið hafa til grundvallar í hinni miklu verðbólgu ekki úr sögunni, þeim hefur að mestu verið frestað.

Á þeim handahlaupum sem tíminn gefur mönnum í þessu falli í umræðunni þá langar mig aðeins að rifja upp örfáar fyrirsagnir úr blöðum síðustu mánuðina. Fréttablaðið segir í haust er leið: ,,Hörð gagnrýni á efnahagsstefnu. Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, gagnrýnir stefnu stjórnvalda. Erlendar skuldir hafa aukist úr 50% af landsframleiðslu í 84% á skömmum tíma.``

Formaður Samtaka iðnaðarins talaði um blindflug í efnahagsmálum sem væri hættulegt og framkvæmdastjórinn sagði að góðærið á Íslandi væri knúið áfram með erlendri skuldasöfnun. Skattar á einstaklinga hafa margfaldast á síðustu tíu árum, 66 milljarða gjaldaaukning meðan bætur hafa aðeins aukist um 1,4 milljarða.

,,Gjaldþrotahrina mesta ógnunin``, sagði Árni Tómasson, bankastjóri Búnaðarbankans, ,,framtíð lánastofnana í mikilli tvísýnu.``

,,Hundruð prósenta hækkanir á kostnaðarhlutdeild sjúklinga``, segir í frétt frá 19. desember sl. ,,Heilbrigðisráðherra staðfestir að útgjöld til heilbrigðismála hækki um 6,4 milljarða, en kostnaðarhlutur sjúklinga stórhækkar. Ekki samstaða um að mæta þessu með öðrum leiðum, segir ráðherrann.``

Síðan segir Dagblaðið á sínum tíma: ,,Gjöld hafa þrefaldast en bætur staðið í stað.``

Þannig getum við haldið áfram að rifja upp og stiklað á því stærsta en allt ber að sama brunni: Við erum illa stödd fjárhagslega og efnahagslega séð enn sem komið er.