Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 14:30:49 (7788)

2002-04-18 14:30:49# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Meðferð þessa máls í efh.- og viðskn. og fjöldi gesta sem kom á fund nefndarinnar staðfestir að það er ekkert sem hrekur þá skoðun okkar í stjórnarandstöðunni að það skorti öll hagfræðileg og fagleg rök til að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Staðreyndin er sú að kostnaðurinn við að leggja niður Þjóðhagsstofnun mun tvöfaldast. Hér er því í fyrsta lagi um að ræða heimsku, að leggja hana niður, og í öðru lagi sóun á fjármunum.

Ég vil spyrja hv. frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. að því sem fram kemur í nál. Þar er talað um að gert sé ráð fyrir að aðilar á borð við Seðlabanka, aðila vinnumarkaðarins og einkaaðila geti tekið að sér og sinnt einhverjum verkefnum, sem Þjóðhagsstofnun hefur væntanlega haft á sinni könnu. Hvaða ,,einhver`` verkefni er hér um að ræða? Staðreyndin er nefnilega sú að málið er vanbúið til afgreiðslu. Það sýnir að menn eru alls ekki vissir um hvert þeir eiga að flytja öll þessi verkefni.

Í annan stað spyr ég hvaða aðila vinnumarkaðarins er verið að tala um sem geta tekið að sér að sinna einhverjum verkefnum. Er bara verið að tala um ASÍ? Er verið að tala um önnur heildarsamtök launafólks eða er verið að tala um Samtök atvinnulífsins? Þetta kemur hér fram í nál. og krefst skýringa. Ég óska svara við því frá hv. frsm. meiri hluta. Hvaða verkefni eru þetta sem flytja á til Seðlabankans og við hvaða aðila vinnumarkaðarins er átt í nál. meiri hlutans?