Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 22:05:51 (7826)

2002-04-18 22:05:51# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[22:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins nefna vegna þess að menn eru að tala um sjálfstæði Þjóðhagsstofnunar annars vegar og þeirra stofnana sem hér um ræðir hins vegar, Hagstofu og Seðlabanka. Þjóðhagsstofnun heyrir undir forsrh., segir í lögunum, með nákvæmlega sama hætti og Seðlabankinn. Ég skipti mér ekki nokkurn skapaðan hlut af daglegum rekstri Seðlabankans. Ég hef verið ráðherra Hagstofunnar nú í rúm tíu ár, tíu ár og ellefu mánuði. Ég hef komið þar einu sinni. Ég er að vísu ráðherra þar en ég hef ekki skipt mér af einni einustu mannaráðningu þar. Ég reyndar man ekki hversu margir starfsmenn vinna þar, hvort það eru 80 eða 100, aldrei skipt mér af því hver er ráðinn þar til starfa og aldrei skipt mér af nokkrum sköpuðum hlut. Það má kannski segja að ég hafi verið að vanrækja starf mitt með því.

Það sem meira er, eins og fram hefur komið er lagt til og að því stefnt að Hagstofunni verði breytt úr ráðuneyti í sjálfstæða stofnun undir stjórn sem heyrir undir forsrh. með sama hætti og Þjóðhagsstofnun. Ég hygg að fyrrv. forstjóri Þjóðhagsstofnunar geti einnig sagt frá því að ég hef aldrei skipt mér af rekstri Þjóðhagsstofnunar og þau rúmu tíu ár sem ég hef verið yfirmaður Þjóðhagsstofnunar hef ég komið þar einu sinni og reyndar held ég að forstjórinn hafi ekki verið við þegar ég kom, en það var ekki honum að kenna því að ég gerði ekki boð á undan mér.

Þó að í lögunum segi að þetta heyri undir forsrh. þá er maður ekkert að skipta sér af þeim stofnunum. Hvað á ég að vera að skipta mér af Hagstofunni sem er að mæla verðlag og þess háttar? Það er engu að stjórna fyrir mig, hagstofustjórinn sér um það. Og þannig eru þessar stofnanir. Þær eru því algjörlega jafnsjálfstæðar, Seðlabankinn og Hagstofan, eins og Þjóðhagsstofnun hefur verið og á því er enginn munur og ég er hissa á því að dósentinn sem alltaf er verið að vitna í hjá háskólanum, sem ég veit nú ekki til að sé neinn talsmaður háskólans, skuli ekki hafa áttað sig á þessu.