Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 18:21:49 (8272)

2002-04-26 18:21:49# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[18:21]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson leggjast afar lágt í málflutningi sínum nú. Það vill svo til að flokkar okkar, þ.e. Framsfl. og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, hafa náð mjög góðu og öflugu samkomulagi í Reykjavík um að bjóða fram ásamt Samfylkingunni til borgarstjórnarkosninga. Þessir þrír flokkar vinna þar saman að málefnum Reykjavíkurborgar á mjög öflugan hátt í sátt og samlyndi. Ég tek beinan og virkan þátt í þeirri vinnu og ég veit nákvæmlega hvað stefnuskrá Reykjavíkurlistans gengur út á þar sem vísindagarðar í Vatnsmýrinni eru annars vegar. Þar er ekki orð um neinn ríkisrekstur versus einkarekstur. Þar er bara talað um að öflug fyrirtæki á sviði þekkingariðnaðaðar geti átt þarna athvarf hjá Náttúruhúsi, hjá Háskóla Íslands, í nánum tengslum við háskólasjúkrahús og í nánum tengslum hvert við annað.

En hvernig atvinnuuppbyggingu viljum við sjá? Við viljum sjá lággróður og hágróður saman. Við viljum ekki þurfa að upplifa tilfinninguna um tunglflaug sem hefur lent á morgunverðarborðinu okkar og drepur allt, allan lággróður. Við viljum fjölbreytni. Við viljum standa við bakið á öflugum fyrirtækjum á borð við Lyfjaþróun hf., Delta, Flögu og fleiri fyrirtæki má nefna sem starfa á þessu sviði. Við erum ekki að tala fyrir ríkisreknum atvinnurekstri eins og stjórnarflokkarnir eru að gera núna með þeim gífurlega stuðningi sem eitt fyrirtæki, Íslensk erfðagreining, hefur notið úr hendi ríkisstjórnarinnar. Þar má nefna gagnagrunninn, einkaleyfi fyrir gagnagrunn á heilbrigðissviði, málamyndagjald fyrir þetta einkaleyfi og starfrækslu grunnsins og svo núna 20 þús. millj. kr. ríkisábyrgð. Af hverju á að reka eitt fyrirtæki með ríkið sem bakhjarl á meðan önnur þurfa að hafa sjálf sig sem bakhjarl?