Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 11:26:58 (8335)

2002-04-29 11:26:58# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[11:26]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki talsmaður þess að ríkið taki ótakmarkaðan þátt í uppbyggingu atvinnulífs í landinu með beinni þátttöku í fyrirtækjum. Engu að síður er það þó samt raunveruleiki og getur verið nauðsynlegt, ekki síst t.d. í byggðamálum. Ég vil vekja athygli á því að þessi verksmiðja er til staðar. Ég tel að ríkið eigi ekki að draga sig út úr mikilvægum fyrirtækjum, ég tala nú ekki um út um hinar dreifðu byggðir, og rugga þar með því sem orðið er. Ég tel að það sé töluvert ólíkt hvort við stöndum vörð um það sem fyrir er eða ekki, og metum síðan hverja aðra framkvæmd sem ríkið tekur þátt í. En þarna er um það að ræða að standa vörð um mikilvægt fyrirtæki sem er staðsett og hefur dafnað og starfað í Skagafirði. Það eru nú ekki miklir fjármunir sem ríkið á þarna inni en þeir hafa verið með í því að tryggja stöðu þessa fyrirtækis. Ég vil að svo verði áfram. (Gripið fram í: Á að loka því?)