Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 11:28:11 (8336)

2002-04-29 11:28:11# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[11:28]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þessi andstaða fyrst og fremst felast í því að leggjast gegn því að sveitarfélagið, sem hefur lagt mikla peninga í þetta fyrirtæki og þarf að losa þá peninga vegna skuldastöðu sinnar, fái að gera það. Andstaðan virðist ganga út á það að það megi ekki gerast. Síðan hefur hv. þm. lýst því yfir í umræðunni að hann vilji að ríkið leysi til sín, svona til þrautavara, eignarhlut sveitarfélagsins. Mér finnst það mjög sérkennileg yfirlýsing. Ég spyr bara: Er ekki fólgin í henni sú afstaða að ríkið eigi bara að ganga í að kaupa framleiðslufyrirtæki? Tekur þessi verksmiðja sig til flugs ef einhverjir aðrir eiga hana en ríkið og sveitarfélagið? Hvert fara menn með hana? Er einhver ástæða til að halda að þessi framleiðsla haldi ekki áfram?

Mér finnst skorta heildarrökstuðning fyrir því hvað ríkið eigi að ganga langt í því að taka þátt í atvinnurekstri í landinu þegar menn eru allt í einu öskuvondir og vitlausir út af því að ríkið selji eignarhlut sinn í fyrirtæki eins og þessu.