Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:12:48 (8387)

2002-04-29 16:12:48# 127. lþ. 132.18 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:12]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ákaflega skiljanlegt viðhorf hjá Alþýðusambandi Íslands og verkalýðshreyfingunni að reyna að koma í veg fyrir offramboð á vinnumarkaði. Ég held samt sem áður að þátttaka erlendra námsmanna á vinnumarkaði sé þess eðlis að ekki sé mikil hætta á að þeir valdi offramboði.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að þetta skerði nokkuð stöðu námsmanna að þessu leyti frá því sem áður var. Ég held að það sé rangt hjá hæstv. ráðherra að skilyrðin séu rýmkuð að því leyti til að skilyrði um umsögn stéttarfélagsins sé fellt niður. Það gilti einungis áður ef um var að ræða að starfið væri hluti af námi, hafi ég skilið málið rétt. Ég held meira að segja að það standi hérna í greinargerðinni.

Ég ítreka að mér þykir það gott ef hæstv. ráðherra ætlar að beita sér fyrir því að í reglugerðinni sé þetta skýrt tekið fram með skiptinemana.

Að því er varðar síðan tímalengd í starfi erlendra námsmanna hér á landi er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra líka að yfirleitt eru þeir ekki mörg ár í starfi hérna. Ég þekki þó dæmi þess. Og ég veit auðvitað að það er alsiða þegar skiptinemar og erlendir námsmenn koma hingað til náms --- eru búnir að koma sér niður í málinu --- er æskilegt frá mörgum sjónarhólum að þeir taki þátt í starfslífi þjóðarinnar. Þeir kynnast þjóðinni betur, læra málið fyrr og verða sér úti um fjármuni til að geta lifað. Ég held því, og veit auðvitað dæmi þess, að menn hafi verið hér í nokkur ár og horfið síðan til síns heima.

Aðalatriðið er að hér eru skýrar reglur. Það á ekki samkvæmt því sem hér er sett niður að vera hægt að svindla neitt og þess vegna eiga menn ekkert að vera að þrengja að þeim að þessu leyti.