Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 18:00:24 (8405)

2002-04-29 18:00:24# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[18:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það ískyggilegt að formaður stjórnar Byggðastofnunar, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, skuli vera á þessu algera blekkingar-afneitunarstigi gagnvart stöðu sveitarfélaganna í landinu. Hv. þm. lætur eins og það skipti engu máli hvernig rekstrarútgjöld sveitarfélaganna hafa þyngst ár frá ári sem hlutfall af tekjum sem skilur eftir sífellt minna svigrúm til fjárfestinga, til að borga niður skuldir eða hvað sem það nú er. Getur hv. þm. skautað svona léttilega yfir þá staðreynd að á 6--8 ára tímabili hafa rekstrarútgjöld sveitarfélaganna sem hlutfall af skatttekjum farið úr 75--77% upp í um 85--90%, eins og þetta stefnir núna í hjá fjölmörgum sveitarfélögum, að meðaltali líklega á bilinu 83--85% á síðasta ári og ört hækkandi? Þetta liggur fyrir og fram hjá þessu kemst hv. þm. ekki.

Að sveitarfélögin á Vestfjörðum séu núna í sóknarhug og þeim hafi bæst fjármunir vegna sölunnar á orkubúinu. Skárra væri það nú þó að peningarnir hyrfu ekki líka! En við vitum það, herra forseti, er það ekki, að það er skammgóður vermir að ganga á eignir sínar, að selja þær. Það er aðferð íhaldsins, bæði hjá ríkinu og náttúrlega sveitarfélögunum, að afla sem minnstra tekna, að lifa á því að selja eignir, einkavæða og selja. En hvað á svo að gera þegar eignirnar verða búnar? Hvað ætla sveitarfélög á Vestfjörðum að selja næst ef engar grundvallarbreytingar verða á fjárhagsstöðu þeirra að öðru leyti? (Gripið fram í: Vatnsveiturnar.) Hvað eiga þau eftir fimm ár? Fram hjá þessu horfir hv. þm. algjörlega og það er mjög ískyggilegt mál.

Síðan held ég því fram, af því það er staðreynd, að ríkisstjórnin hefur níðst á sveitarfélögunum algerlega, íhaldið hefur læst kassanum, og framlag ríkisins til lausnar félagslega íbúðavandanum er náttúrlega hraksmán. Eru það ekki um 300--350 milljónir eftir að ríkið er búið að svíkja það sem það þó lofaði, að leggja 50 milljónir á ári í sjóð?