Útlendingar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 23:57:22 (8444)

2002-04-29 23:57:22# 127. lþ. 132.19 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv. 96/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[23:57]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er aðili að því minnihlutaáliti sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir kynnti hér í framsögu og hafði vissulega veg og vanda af að vinna að mestu leyti. Þess vegna vil ég aðeins koma hér upp og ræða þetta mál.

Þegar verið er að ræða heildarlöggjöf eins og þessa þá er verkið vandasamt og það ber að leggja mikla og vandaða vinnu í það. Vissulega hefur mikið verið fjallað um þetta mál í hv. allshn. Þegar litið er á tillögur meiri hlutans er hægt að fletta upp á 4. síðu og sjá þar í stuttu máli hvaða efnisbreytingar meiri hlutinn lagði til. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Loks telur meiri hlutinn rétt að geta þess að þeir útlendingar sem öðlast hafa réttindi samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum skulu halda öllum áunnum réttindum.

Mælir meiri hlutinn með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær breytingar eru auk orðalagsbreytinga:``

Svo kemur upptalningin í tveimur liðum.

,,1. Lagt er til að dvalartími erlendis sem fellt getur niður búsetuleyfi skv. 15. gr. verði lengdur úr tólf mánuðum í átján mánuði.``

Útlendingur tapar sem sagt ekki rétti til að vera hér. Sá tími er lengdur sem hann getur verið erlendis. Það er önnur efnisbreytingin:

,,2. Lagt er til að Flóttamannaráð Íslands geri tillögu um að heimila hópum flóttamanna komu til landsins sem ákvörðun stjórnvalda byggist á.``

Þetta eru efnisbreytingarnar sem koma fram í áliti meiri hlutans. Þrátt fyrir að við höfum lagt í þetta mikla vinnu og að meiri hluti og minni hluti séu ekki sammála um efnistökin og þrátt fyrir fjöldamargar umsagnir sem hér hefur verið gerð grein fyrir og ég ætla ekki að fara að endurtaka --- þær koma fram í minnihlutaálitinu og eru frá Alþýðusambandi Íslands, frá Mannréttindaskrifstofunni, frá fjölmenningaráðinu, frá Toshiki Toma, Lögmannafélagi Íslands, Alþjóðahúsi o.s.frv. Þessir aðilar koma allir með verulegar ábendingar. Einkum eru þeir sammála um að það eigi ekki að vera kvöð að útlendingar skuli sækja námskeið í íslensku heldur eigi að leggja það fram sem valkost sem útlendingar eigi vissulega rétt á. En ekki er talið æskilegt að þetta sé lagt á þá sem kvöð. Það er í raun í samræmi við löggjöfina sem við ræddum fyrr í dag um atvinnuréttindi útlendinga. Undir það sjónarmið vil ég taka.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa langt mál um þetta. Ég hygg að svo vel sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir fór yfir þetta mál og vék að þeim efnisatriðum sem við í minni hlutanum teljum að hefði þurft að taka betur á, þá muni ég ekki bæta þar mikið um betur. Ég vil þó geta þess, herra forseti, að ég geri athugasemdir, eins hv. þm. Ögmundur Jónasson, við 15. gr. og 55. gr. Ég tel að málið hefði þurft að vinnast betur og það hefði þurft að taka meira tillit til þeirra umsagna sem okkur bárust í allshn. Eins og fram kemur í minnihlutaálitinu falla þær margar hverjar í sama farveg varðandi þau atriði sem bent hefur verið á að hefði þurft að lagfæra í þessari löggjöf. En þar sem meiri hlutinn féllst ekki á það mælum við í minni hlutanum ekki með samþykki þessa frv.