Búfjárhald o.fl.

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 12:40:30 (8541)

2002-04-30 12:40:30# 127. lþ. 134.28 fundur 338. mál: #A búfjárhald o.fl.# (heildarlög) frv. 103/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[12:40]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram vegna þess að ég var ekki viðstödd á þessum eina fundi þegar þessi mál voru flestöll afgreidd út úr nefndinni, að ég hef tekið fullan þátt í afgreiðslu þeirra allra. Þetta mál styð ég fullkomlega og án fyrirvara.

Ég held að þetta mál sé til mikilla bóta. Það felur í sér töluverðar breytingar á búfjáreftirliti, m.a. er verið stækka svæðin og draga úr nálægðinni sem oft er svo erfið í þessum málum, þegar til aðgerða þarf að grípa. Lagt er til að dregið sé úr forðagæslueftirliti hjá umráðamönnum búfjár sem sinna skyldum sínum vel. Ég tel að það sé líka af hinu góða. Það er engum til góðs að ástunda ofeftirlit eða yfireftirlit, að alltaf sé verið að skoða hjá þeim sem fyrir fram er vitað að allt er í lagi hjá og hefur alla tíð verið. Ég tel að það sé til bóta.

Umráðamenn búfjár verða skráðir og gerðar verða endurbætur á úrræðaferli fyrir mál er varða slæman aðbúnað eða fóðrun búfjár. Þetta eru kannski veigamestu atriðin í frv. Þarna hefur skort á að hægt væri að taka nógu afdráttarlaust á málum. Með samþykkt þessa frv., svo ég nefni eitt atriði, er t.d. verið að stytta fresti sem hafa verið óþarflega langir og hafa gert málin erfið og tafsöm. Ég held að það sé líka af hinu góða.

Einnig er lagt til að ekki fari fram sérstök talning búfjár nema rökstuddur grunur leiki á um að eitthvað sé bogið við þá talningu eða þær tölur sem upp eru gefnar. Varðandi eftirlitsgjaldið eru það sveitarfélögin sem kosta eftirlitið. Aðeins í þeim tilfellum, hjá þeim sem við getum kallað tossana, að einhver handvömm er varðandi fóðrun eða hýsingu gripa þurfa bændurnir sjálfir að borga kostnað sem af því hlýst.

Ég lýsi því fullum stuðningi við þetta mál og vona að það muni bæta málsmeðferð sem tíðkast hefur.