Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 14:36:13 (8569)

2002-04-30 14:36:13# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[14:36]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum í 3. umr. um það mál að veita hæstv. iðnrh. heimild til að selja eignarhluta ríkisins í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Ég reyndi að átta mig á því í gær, hæstv. forseti, hvernig það hefði komið til að sú ákvörðun spratt allt í einu upp úr hatti hjá hæstv. ríkisstjórn að taka þá ákvörðun að vilja selja eignarhlut ríkisins í verksmiðjunni. Til þess að átta mig á því, herra forseti, byrjaði ég á því að fara yfir hluta af athugasemdum með frv. hæstv. ráðherra. Með því að reyna að rekja mig eftir þeim vöknuðu ýmsar spurningar og ég reyndi að fá svör við þeim frá hæstv. iðnrh. Ég spurði m.a. hvort hæstv. iðnrh. liti svo á að það samræmdist stefnu Framsfl. ,,Fólk í fyrirrúmi`` að taka slíka áhættu með fyrirtækið að ríkið færi að selja hlut sinn vegna þess að staðan sem uppi var í málinu var auðvitað sú að það var sveitarfélagið, réttara sagt hafði byggðaráð tekið þá ákvörðun í ágúst 2001 að leita eftir sölu á hlutabréfum sveitarsjóðs í Steinullarverksmiðjunni hf. Ég geri ráð fyrir, herra forseti, að sveitarfélagið hafi tekið þá ákvörðun eða hún hafi verið tekin á grundvelli þess að fjárhagsstaða sveitarfélagsins hafi verið slæm og menn hafi viljað laga hana. Eins og alþekkt er hefur það verið stefna ríkisstjórnarinnar að ýta undir það með öllum tiltækum ráðum að sveitarfélögin seldu eignir sínar, einkum ef í þeim fælust einhver verðmæti til þess að laga skuldastöðu sína. Hér hafði sem sagt sveitarfélagið Skagafjörður tekið þá ákvörðun að reyna að selja eignarhlut sinn eða eins og segir í athugasemdum:

,,Var niðurstaða fundarins sú að sveitarfélagið legði fram nánari hugmyndir um sölu bréfanna og tæki í framhaldi af því upp viðræður við einstaka hluthafa.``

Síðan kemur það fram í athugasemdum sem ég las allar í gær og ætla ekki að lesa núna frá orði til orðs, að fram fór verðmætamat á fyrirtækinu sem reyndist vera 795 millj. tæpar upp í tæpa 842,5 millj. og það svaraði til gengisins 2,88--3,05 og sveitarfélagið ákvað svo að bjóða sinn hluta á genginu 3,05.

Sveitarfélagið bauð ríkinu sinn hlut og ríkið hafnaði því. Út af fyrir sig er svo sem ekkert við því að segja að ríkið hafi ekki viljað kaupa þennan hlut í þessari stöðu og með hliðsjón af öðrum framkvæmdum eins og kaupum ríkissjóðs á Orkubúi Vestfjarða við að lagfæra stöðu sveitarfélaganna þar að þeirra mati til framtíðar þó að ég hyggi að það sé skammgóður vermir ef ekki finnast önnur ráð eins og að efla atvinnustarfsemi á Vestfjörðum til framtíðar, þá muni ganga á það söluverð sem sveitarfélögin þar fengu. En hvað um það. Ríkið hafnaði sem sagt að kaupa þennan hlut. Síðan segir að það hafi komið tilboð frá GLD heildverslun og Kaupfélagi Skagfirðinga sem sameiginlegt tilboð í 52%, hlut sveitarfélaganna og Paroc Group í fyrirtækinu. Þá kemur þetta skrýtna ferli sem snýr að ríkinu en frá því segir í athugasemdum með frv., með leyfi forseta:

,,Þegar eftir að ríkinu varð kunnugt um að slíkt tilboð hefði komið fram var óskað eftir fundi með aðilum hluthafasamkomulagsins til að ræða breyttar forsendur sem upp væru komnar og framtíðareignarhald á félaginu. Á fundinum lýstu fulltrúar ríkisins því yfir að þar sem fyrir lægi að Paroc hefði breytt um afstöðu og vildi nú selja hlut sinn í fyrirtækinu þá vildi ríkið jafnframt taka til athugunar að selja sinn hlut.``

Þannig hófst þetta ferli. Sem sagt, alveg tilviljanakennt ferli eftir því sem ég kemst næst og eftir þeim spurningum sem ég bar fram í gær, þá gat ég ekki fengið annað út en að hér hefði verið tekin ákvörðun, bara svona einn, tveir og þrír, af því að aðrir væru hugsanlega að selja, þá vildi ríkið selja. Endilega að auka á þá óvissu sem upp var komin. Það var hið besta sem ríkið gat fundið út úr sinni stöðu og hæstv. ráðherra byggðamála hljóp í það að það væri aldeilis til framdráttar málinu að ríkið seldi nú hlut sinn líka á sama tíma og sveitarfélagið og setti málið í meira uppnám heldur en ella hefði þurft að vera. Þetta er náttúrlega alveg snilldarleg byggðastefna, hæstv. ráðherra, alveg sérstaklega vel útfærð, skynsamleg og allt það.

Svona var að verki staðið í þessu máli, herra forseti. Þarna var allt í einu komin upp sú staða að nú var það ríkið sem slóst um að fá að selja sinn hlut en ekki að sveitarfélagið gæti fengið að selja hlut sinn í friði og ná samkomulagi um það úr því að menn töldu að það væri æskilegt og ríkið væri þá tilbúið að halda sínum hlut svo það væri ekki of mikið rót á fyrirtækinu meðan sveitarfélagið væri að selja hlut sinn. Nei, ríkið þurfti endilega fara í söluna líka til þess að auka á óvissuna, laga ástandið, herra forseti. Það er hin verðuga byggðastefna sem hæstv. ráðherra hefur unnið að í þessu máli og væri hægt að fara mörgum orðum um þessa snilldarlegu byggðastefnu sem hér hefur verið rekin í landinu og ég hef leyft mér að kalla eyðibyggðastefnu ríkisstjórnarinnar af mörgu tilefni, herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í það í þessari umræðu. Síðar í dag, í kvöld, nótt og næstu daga gefast ágæt tækifæri til að ræða eyðibyggðastefnuna eins og hún er í framkvæmd í sambandi við sjávarútvegsmál. Og byggðamálin, ég geri ráð fyrir að þau komi til umræðu líka --- skýrslan um það hvernig á að halda landinu í byggð og efla byggðina. En hvað um það.

[14:45]

Ég spurði hæstv. ráðherra í gær hvers vegna þessi ákvörðun hefði verið tekin, svona einn, tveir og þrír, af hverju ríkið hefði ekki getað sætt sig við að eiga þennan hlut í fyrirtækinu. Það er margbúið að koma hér fram að þetta fyrirtæki sé vel rekið og ágætlega statt, hafi góða markaðsstöðu og allt eftir því þannig að áhættan í því sé ekki mikil. Þess vegna átta ég mig ekki á því hvers vegna menn stóðu allt í einu á annarri löppinni í ríkisstjórninni á fullri ferð við að reyna að selja sinn hlut. Hvaða hagsmunum var ríkið að þjóna með því?

Eftir því sem ég komst næst voru hagsmunirnir þeir að það væri mat ráðherrans að með því að hengja sig í þessa sölu sem núna ætti að eiga sér stað fengist eitthvað sem héti ásættanlegt verð fyrir hlut ríkisins. Það var ekki endilega verið að hugsa um að rugga ekki ástandinu og gera ekki meiri óróa í kringum sölu á eignarhlut bæjarins heldur en verið hefði. Nei, það var bara verið að hugsa um að e.t.v. gæti ríkið náð ásættanlegu verði fyrir hlut sinn. Svo komu þessar skýringar sem ég var að reyna að fá fram við spurningum mínum. Þá varð niðurstaða mín sú eftir svar hæstv. ráðherra, að ef ekki hefði verið gert samkomulag um söluna sem við erum að veita heimild fyrir þá hefði hluturinn í fyrirtækinu sem er ágætlega rekið, ágætlega fjárhagslega statt með góða markaðsstöðu, fastan starfsmannakjarna, góða framleiðslu, allt í einu orðið verðlítill. Það var svar hæstv. ráðherra í gær. Hann hefði orðið verðlítill ef ekki hefði verið gripið til þess ráðs að selja núna.

Herra forseti. Það datt út úr mér í gær hvort það væri skoðun hæstv. ráðherra að hann hefði verið að selja einhverjum bjánum sem hefðu keypt á einhverju yfirverði. Ég á kannski ekki að taka svona til orða. En það er nú samt svo, herra forseti, að þegar einhver telur sig selja á ásættanlegu verði en álítur jafnframt að hluturinn verði ákaflega verðlítill þá finnst mér að verið sé að hafa þá sem kaupa að hálfgerðum fíflum. Ég get ekki dregið aðra álytkun, herra forseti, af orðum hæstv. ráðherra í gær en að hæstv. ráðherra líti svo á að nú hefði náðst ásættanlegt verð og ef það hefði ekki náðst akkúrat núna þá hefði hluturinn orðið verðlítill og þar af leiðandi hefði ráðherranum eiginlega tekist að plata þessa sölu út á ágætu verði. Það er ekki hægt að skilja þetta svar öðruvísi. Ég held að öll eftirfylgnin í þessu máli sé eiginlega sú að Framsfl. í heild sinni haldi að hann hafi sýnt einhverja yfirburði við að selja fyrirtæki og náð einhverju sérstaklega góðu verði fyrir sinn hlut því að ella hefði hluturinn orðið verðlítill eins og ráðherrann sagði.

Ég held því miður að þessi máltilbúnaður allur sem hér hefur verið lagt upp með sé sýndarmennska ein. Nær hefði verið fyrir ríkið að horfa á þetta með því hugarfari að bæjarfélagið gæti klárað sína sölu úr því að þeir vildu selja og þannig tryggt hag bæjarfélagsins en að ríkið væri ekki að rugga þeim bát með því að teygja sig inn í þá sölu sem átti að eiga sér stað. Ríkið hefði átt að sýna staðfestu og segja: ,,Við erum ekki að selja. Við teljum þetta gott fyrirtæki sem megi reka til framtíðar.`` Ef það hefði bara legið fyrir að þannig væri staðan þá gæti jafnvel verið að bæjarfélagið sem slíkt hefði fengið meiri peninga fyrir sinn hlut, þ.e. ef það hefði alveg legið fyrir að ríkið teldi þetta góða eign. En svo virðist ekki vera samkvæmt orðum ráðherra. Hluturinn hefði orðið verðlítill.

Herra forseti. Ég spurði hv. þm. Jón Bjarnason áðan úr þessum ræðustól hvernig hann hefði skilið þetta svar, að annars vegar hefði verið selt á ásættanlegu verði og hins vegar að ef ekki hefði verið selt þá hefði hluturinn orðið verðlítill. Það fór fyrir honum eins og mér að hann áttaði sig ekki alveg á þessu svari og fékk ekki samhengi í það. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki enn þá búinn að fá samhengi í þetta svar frá hæstv. ráðherra og sit sennilega uppi með það að ráðherrann telur að hann hafi selt á mjög góðu verði, ásættanlegu verði, en ef hann hefði ekki selt þá hefði hluturinn orðið mjög verðlítill. Þá spyr maður auðvitað: Voru þeir sem keyptu að kaupa köttinn sekknum, eða hvað? Er það snilldin í þessu frv. að fylgja þessu eftir svona út á þetta?

Herra forseti. Niðurstaða mín eftir að hafa hlustað á umræður, rök og gagnrök í þessu máli er sú að óskynsamlegt sé í þessari stöðu hjá ríkinu að selja sinn hlut, það hafi verið óskynsamlegt og ónauðsynlegt gagnvart hagsmunum Skagfirðinga að gera það. Það hefði farið betur ef ríkið hefði ekki farið inn í þetta ferli. Sveitarfélagið hefði þá getað klárað sína sölu eins og að var stefnt en ríkið hefði ekki með neinum hætti verið að rugga því ferli sem sveitarfélagið hafði ákveðið að fara í. En það er akkúrat það sem það hefur verið gert með þessu frv., þ.e. að ríkið hefur farið í þann farveg að auka óvissuna og jafnvel eyðileggja málið að sumu leyti. Það er niðurstaða mín eftir að hafa hlustað á þetta. Þess vegna mun ég leggjast gegn þessari heimild.