Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 15:15:40 (8577)

2002-04-30 15:15:40# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða frekari orðum í prófkjörsvandamál hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Ég hygg að ef hann lítur í eigin barm standi hv. þm. frammi fyrir nokkrum vandamálum sem gaman gæti verið fyrir hann að rifja upp.

Varðandi aðkomu hv. þm. að þessu máli þá innti ég hv. þm. eftir því af hverju hann hefði ekki vikið að samþykktum félagsmanna sinna í Skagafirði um þetta mál. Ég held að þeir hefðu frekar viljað hlusta á einhver orð á þeim vettvangi frá hv. þm.

Ég hef lýst því að ég tel að hagsmunum Skagfirðinga sé best borgið með því að Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki búi við þann trygga bakhjarl og þá kjölfestu sem hún býr við í núverandi eigendum verksmiðjunnar, að þar séu hagsmunirnir mestir. Við hitt, að ætla að veifa framan í fólk að þessi hluti söluandvirðisins eigi að renna til þessa eða annars, verkefna sem eru hvort eð er á ábyrgð ríkisins og á að vinna, set ég spurningarmerki. Ríkissjóður er bara einn sjóður. Eins og komið hefur fram í umræðunum þá er hér fyrst og fremst um heimild að ræða, Samkeppnisstofnun á eftir að ákveða, m.a. hvort þetta geti farið fram. Fjárútlát eða ráðstöfun fjárins er líka háð fjárlögum og fjárlög koma í haust.

Að sjálfsögðu vil ég fá sem mest fjármagn í Skagafjörð, til þeirra mörgu brýnu verkefna sem þar eru. En ég ítreka það mat mitt að hagsmunum Skagfirðinga sé best borgið með því að Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki búi við sem öruggastan grunn og öruggust starfsskilyrði. Þess vegna tel ég að ríkið eigi ekki að selja hlut sinn í henni.