Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 23:20:49 (8732)

2002-05-02 23:20:49# 127. lþ. 135.21 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, Frsm. minni hluta ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[23:20]

Frsm. minni hluta landbn. (Þuríður Backman) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að fá frekari svör og útskýringar hjá hæstv. landbrh. því að orð hans mátti skilja svo að hann teldi að íslenskir neytendur litu á lambakjötið sem vistvæna vöru og það þyrfti enga sérstaka vottun og vitnanna við, það væri vistvænt kjöt. Hvað er þá þessi gæðastýring? Til hvers er hún þá? Er hún bara launauppbót til bænda sem vilja taka landnýtingar- og landkostaþáttinn inn í framleiðslu sína og fleiri þætti sem yrðu innifaldir í gæðastýringunni? Á það ekkert að skila sér til neytandans? Á ég sem neytandi, eigum við hæstv. landbrh. sem neytendur ekki rétt á að fá að vita hvort það kjöt sem við kaupum, vistvænt eins og það er, sé framleitt af bændum sem taka fullt tillit til landnýtingar, gæta að lyfjagjöf o.fl.? Kemur okkur þetta þá ekkert við? Á þetta ekki að ná inn á borðið til okkar?

Hvað varðar lífrænt ræktað og vottað kjöt er ég ekki viss um að kaupmennirnir séu alfarið með fingurna á púlsinum þar, og alls ekki íslenskir kaupmenn. Ef við horfum til erlendra markaða og til þeirra krafna sem eru nú gerðar í öllum nágrannaríkjum okkar til lífrænt vottaðra landbúnaðarvara --- og þær kröfur munu koma hjá íslenskum neytendum líka, rétt eins og öðrum --- er þá ekki rétt, herra forseti, að beina þeirri hvatningu til hæstv. landbrh. að við séum tilbúin með framleiðsluna þegar kallið kemur?