2002-05-03 00:59:08# 127. lþ. 135.2 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál. 30/127, Frsm. meiri hluta GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[24:59]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Guðjón Guðmundsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað munu stjórnvöld taka tillit til aðgerðalistans sem fylgir þessari byggðaáætlun. Þó það nú væri. Eftir því verður gengið og ég minni á að þessi tillaga og aðgerðalistinn hefur verið lagt fyrir ríkisstjórnina og allir ráðherrar lagt blessun sína yfir hann. Auðvitað verður gengið eftir því að menn vinni eftir þeim tillögum jafnframt þeim tillögum sem við í meiri hluta iðnn. leggjum í púkkið og eru að mínu mati til þess að stórbæta byggðaáætlunina.

En það var annað sem ég kom ekki að í mínu fyrra andsvari vegna tímahraks og það er það sem stendur í nál. 1. minni hluta, með leyfi forseta:

,,Fyrri áætlanir hafa gefið fyrirheit sem ekki reyndist pólitískur vilji til að standa við eða framkvæma.``

Ég er ekki sammála þessu, a.m.k. hvað varðar síðustu byggðaáætlun. Það gekk mjög margt eftir af því sem samþykt var í þeirri áætlun, mjög margt. Ég minni á í fljótu bragði að stórauknu fé var varið til atvinnuþróunarmála á landsbyggðinni eins og ég gat um í ræðu minni áðan. Komið var á fót eignarhaldsfélögum. Ríkið er búið að setja á annan milljarð í eignarhaldsfélög á landsbyggðinni. Þá var stóraukið framlag til jöfnunar húshitunar, stóraukin framlög til jöfnunar námskostnaðar. Þau voru tvöfölduð á tímabilinu. Fé var varið í vegi á jaðarsvæðum, lánastarfsemi Byggðastofnunar efld, símenntunarstöðvum komið á fót, fjarkennsla stóraukin sem er náttúrlega stórkostlegt landsbyggðamál, sérstök framlög til hitaveitna á köldum svæðum og fleira mætti nefna. Mér finnst ekki sanngjarnt að segja að ekki hafi verið pólitískur vilji til þess að framkvæma þá áætlun.

Af því að hv. þm. nefndi að ekki væri vilji til að afgreiða þingmannatillögur, þá minni ég á að ég mælti fyrir nál. iðnn. um þrjár þingmannatillögur áðan. Gott ef þær voru ekki allar frá flokkssystkinum hv. þm.