2002-05-03 01:21:39# 127. lþ. 135.2 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál. 30/127, EOK
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[25:21]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Í fyrri umræðunni um þessa þáltill. lét ég í ljós mikil vonbrigði með hvernig að þessu væri staðið. Ég taldi að sú breyting sem orðið hefði á frá fyrri byggðaáætlun væri öll af hinu verra. Við höfðum reynslu af fyrri byggða\-áætlun sem var byggð upp þverpólitískt og ríkisstjórnin flutti. Sú áætlun var okkur mikil stoð og stytta í þeirri mjög svo erfiðu stöðu sem byggðamálin voru í og eru enn. Hún hjálpaði okkur að knýja á að fá fjármuni til brýnna verkefna.

Ég held að sú breyting sem hefur verið gerð, það form sem við höfum á þessu núna sé miklu lakara en það sem við höfum áður. Ég tel að því hafi verið rangt að breyta. Hins vegar er skýrt að í meðförum iðnn. hefur þetta mál batnað mjög. Margir liðir koma þarna inn sem geta eflaust orðið okkur til styrktar. Ég er hins vegar áfram ákaflega óánægður með þetta. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir. Hún sagði í kvöld að byggðaáætlunin væri hvorki fugl né fiskur en hins vegar finnst mér, herra forseti, mjög margt í henni í skötulíki.

Ég ætla ekki, á þessum næturfundi, að fara ofan í þetta lið fyrir lið. Þó er eitt atriði varðandi þessa byggðaáætlun sem ég kemst ekki hjá því að ræða því að ég get ekki sætt mig við það. Það kemur fram að stofna eigi aðra Byggðastofnun. Sú á að vera á Akureyri. Okkur í Sjálfstfl. eru flutt þau skilaboð að þetta eigi að gera vegna þess að það sé ekki hægt að styrkja Byggðastofnun eins og hún er í dag, sem nú er til allra heilla búið að flytja til Sauðárkróks, vegna þess að hún sé meira og minna óstarfhæf vegna ósamkomulags.

Ég hlýt að mótmæla þessu, herra forseti. Ég er ekki í neinni aðstöðu til að dæma um hvort þarna er um eitthvert ósamkomulag að ræða eða ekki, eða hverjum það er að kenna. Hitt er ég fullkomlega fær um að dæma um og segja, að Byggðastofnun, sem er okkur gríðarlega þýðingarmikil og við eigum að hafa allan metnað gagnvart, er á ábyrgð iðnrh. Ef eitthvað er athugavert við þessa stofnun er það á starfssviði hæstv. ráðherra að sjá til að þessi stofnun, líkt og aðrar stofnanir undir hæstv. ráðherra, sé starfhæf.

Þetta er mál sem ég get ekki sætt mig við vegna þess að Byggðastofnun er grundvallarstofnun. Ef við höfum ekki metnað fyrir hönd þeirrar stofnunar er hætt við að enginn metnaður sé gagnvart því brýna starfi sem við verðum að standa að í byggðamálum.