Loftárásir á Afganistan og aðstoð við uppbyggingu

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 15:08:52 (162)

2001-10-08 15:08:52# 127. lþ. 5.1 fundur 41#B Loftárásir á Afganistan og aðstoð við uppbyggingu# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það hafa orðið mikil tíðindi síðasta sólarhringinn eins og við vitum. Bandaríkjamenn og nokkrar aðrar þjóðir hafa gert loftárásir á Afganistan í því skyni að knýja stjórn talibana til þess að framselja ódæðismanninn Osama bin Laden.

Nú er það svo að stríð eru alltaf ótíðindi. Enginn fagnar styrjöld og vitanlega eigum við öll þá ósk heitasta að sem minnst tjón hljótist meðal almennra borgara vegna þessara árása. En ég tel að í þeirri stöðu sem upp var komin hafi verið erfitt að komast hjá þeim. Heimurinn allur vill sjá Osama bin Laden og samtök hans dregin fyrir lög og dóm til að gjalda illverka sinna. Ég tel að það hefðu verið röng skilaboð til hryðjuverkasamtaka heimsins ef hann hefði komist upp með að sitja áfram í skjóli kúgunarstjórnar talibana og halda áfram að stjórna hryðjuverkum sínum þaðan.

Aðdragandi átakanna og átökin sjálf í gær og í nótt hafa hins vegar þegar leitt til þess að milljónir Afgana eru komnar á flótta og ljóst er að alþjóðasamfélagið verður að gera allt sem í þess valdi stendur til að koma þeim til aðstoðar.

Það hefur þegar verið upplýst í þessum sölum, herra forseti, að Íslendingar munu styrkja flóttamenn í Afganistan með fjárframlagi. Ég vildi spyrja hæstv. forsrh. hvort óskir um frekari aðstoð af hálfu Íslendinga hefðu borist frá alþjóðastofnunum í ljósi síðustu atburða og jafnframt hvort það hafi verið rætt í ríkisstjórninni að Íslendingar mundu í fyllingu tímans þegar átökin eru frá senda hjálparlið eða veita annars konar aðstoð við uppbyggingu í Afganistan.