Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 13:43:22 (434)

2001-10-11 13:43:22# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þessi 1. umr. um frv. til fjáraukalaga hefði hugsanlega getað orðið öðruvísi ef tekist hefði að vinna þá lista sem við óskuðum eftir í minni hluta í fjárln. Við óskuðum sérstaklega eftir því að fá lista yfir þau útgjöld sem þegar hefðu verið innt af hendi, þar sem um væri að ræða ákvarðanir sem teknar hefðu verið fyrr á árinu. Við spurðum á hvaða tíma þær hefðu verið teknar, hvenær hefði verið greitt út og hvað væri óafgreitt, vegna þess að það horfir svolítið öðruvísi við að ræða einstaka liði frv. ef vitað er að búið er að greiða viðkomandi beiðni fyrir þó nokkuð löngu síðan, hugsanlega með fyrirvara um samþykki Alþingis. En þó er það aldeilis ekkert víst.

[13:45]

Einnig er umhugsunarvert að þegar við ræðum frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2001 þá er hér aðeins mættur hæstv. fjmrh. þegar við ættum að vera að ræða þetta frv. við alla ráðherra ríkisstjórnarinnar, vegna þess að við búum við rammafjárlög. Eitt sinn var ákveðið að breyta vinnubrögðum við gerð fjárlaga, færa ábyrgðina meira út til fagráðuneytanna þannig að þau ættu að vera ábyrgari í allri sinni áætlanagerð. Þar af leiðir að hér er jafnvel ekki hægt að ræða annað en útlínur, meginlínur frv. til fjáraukalaga við hæstv. fjmrh. Þó að hann leggi það hér fram og beri á því ábyrgð þá hljótum við að vilja ræða einstaka kafla við viðkomandi fagráðherra og velta því fyrir okkur hvað hefur brugðist í áætlanagerð hjá ráðuneytunum, því að þau bera fulla ábyrgð á því hvernig komið er og þeirri niðurstöðutölu sem hér er.

Auðvitað má skipta fjáraukalögunum upp í ákveðna þætti. Við erum með ófyrirséða þætti eins og kjarasamningana. Við erum með dóma. Við getum orðið fyrir áföllum sem ríkið þarf að bæta á einhvern hátt eins og gerðist í jarðskjálftunum á Suðurlandi í fyrrasumar. En við erum líka með ákvarðanir sem er alveg augljóst að hafa legið fyrir við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár. Og síðan erum við með nýjar ákvarðanir.

Sumir hæstv. ráðherrar hafa farið af stað u.þ.b. hálfum mánuði, þrem vikum eftir að fjárlög hafa verið samþykkt, það er árviss atburður og byrjaði svo sem ekkert með þessari ríkisstjórn, þá hafa þeir farið út um landið til að undirrita ýmsa samninga og skuldbindingar sem ekkert er getið um í aðdraganda afgreiðslu fjárlaga.

Við hljótum að velta því fyrir okkur og skoða gaumgæfilega hvert einasta fagráðuneyti út frá þeim breyttu vinnureglum sem við höfum. Við hljótum líka að skoða að í þessu frv. til fjáraukalaga er það sem kallað er heima hjá mér á Stokkseyri ótrúlegur tittlingaskítur frá einstaka ráðuneyti þar sem verið er að biðja um tvær milljónir í þetta og þrjár milljónir í hitt, en á sama tíma eru ríkisstjórnarákvarðanir með a.m.k. 200 milljóna kr. pott til að mæta ýmsum slíkum liðum, ýmsu því sem getur komið óvænt upp í störfum ráðuneyta á fjárlagaárinu, því er settur upp þessi stóri pottur, svo ekki sé talað um fjölda safnliða sem eru undir hverju ráðuneyti. Ef allt er tínt til er þarna um mun hærri upphæðir að ræða. Auk þess er ríkisstjórnin með á sínum lið að mig minnir 129 milljónir.

En liðurinn sem heyrir undir fjmrn. sem heitir ósköp einfaldlega Ríkisstjórnarákvarðanir, er upp á 200 milljónir. Það segir manni, virðulegi forseti, að þessi ágæta ríkisstjórn hefur tekið ákvarðanir langt umfram þessar 200 milljónir sem voru í pottinum og þar er ekki í öllum tilvikum um ófyrirséða eða óviðráðanlega atburði að ræða sem ríkisstjórnin hefur þurft að mæta, sem er sjálfsagt fyrir Alþingi að taka á hverju sinni og alveg sjálfsagt eftir gerð hverra kjarasamninga sem ríkið kemur að að Alþingi komi saman til að samþykkja þau útgjöld sem kjarasamningar fela í sér hverju sinni.

En það er alveg með ólíkindum að horfa á þetta frv. til fjáraukalaga, fyrir utan þá stóru þætti sem ég tel að ekkert sé hægt að gera við, eins og þá sem snúa að kjarasamningum. Við getum auðvitað ekki sett inn einhverja líklega upphæð í fjárlög þess árs sem samningar standa yfir vegna þess að þar væri verið að gefa ákveðnar línur. Það er útilokað. Hins vegar getum við mætt því sem út úr samningum kemur hverju sinni. En hvað varðar frv. til fjáraukalaga, þá er alls ekki um að ræða að þarna sé eingöngu verið að mæta ófyrirséðum þáttum, síður en svo. Við erum hér með ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur tekið og einstaka ráðuneyti eru að fara fram á fjárveitingar til einstakra verkefna sem, eins og ég sagði áðan, hafa örugglega legið fyrir við samþykkt fjárlaga fyrir þetta ár. Önnur verkefni eru þess eðlis að ég tel bara sjálfsagt að þau bíði og hljóti eðlilega umræðu við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Þar virðist ekkert vera sem a.m.k. brennur á einmitt núna að leysa úr og þess vegna skipti máli að við fengjum lista yfir þá þætti sem ætti eftir að greiða út varðandi þær beiðnir sem hér eru á ferðinni. Ég ætla aðeins, virðulegi forseti, að fara yfir nokkrar beiðnir hér á eftir þó að ég hefði sannarlega kosið að viðkomandi fagráðherrar væru á staðnum.

Við megum heldur ekki gleyma því að til er reglugerð sem segir að ráðherrar, fagráðherrar, sem eiga að standa að þessari rammaáætlun, og ráðuneytin skuli hafa virkt eftirlit með starfsemi undirstofnana eða þeirra stofnana sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti. Á minnst tveggja mánaða fresti eiga ráðuneytin að skoða reksturinn eða stöðuna hjá þeim stofnunum sem heyra til ráðuneytis.

Og hvað skyldi það nú vera gert í mörgum tilvikum? Hvað skyldu mörg þessara ráðuneyta standa fullkomlega við það að veita stofnunum sínum það aðhald sem til þarf og fara að þeim reglum sem settar eru? Í reglugerð er kveðið á um að ráðuneytin skuli vera með eftirlit a.m.k. og ekki sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Og þau skulu gefa út viðvörun til þeirrar stofnunar sem í hlut á ef hún er að fara langt fram úr fjárlögum þess árs eða hefur tekið upp verkefni sem ekki er áætlað fyrir á fjárlögum yfirstandandi árs.

Það er mjög mikilvægt og hefur mjög mikið að segja í framkvæmd fjárlaga hvers árs að eftirlitið sé virkt, alveg sama hvort um er að ræða Alþingi og eftirlitshlutverk Alþingis að ég tali nú ekki um það að ráðuneytin, fagráðuneytin sinni eftirlitshlutverki sínu vegna þess að það er undirstaða þess að rammaáætlanir gangi eftir og að við náum þeim árangri sem að var stefnt þegar sú breyting var gerð að fagráðuneytin báru meiri ábyrgð hvert á sínum málaflokki.

Grunnurinn, hver er hann? Ég spurði starfsmenn fjmrn. á fundi fjárln. um daginn hvaða kennitölur væru notaðar. Er t.d. einhver reikniregla eða eitthvert reiknilíkan sem notað er sérstaklega við áætlun á fjárþörf stofnana, útgjöldum t.d. hvað varðar launaliðinn? Við vitum að starfsmenn eru misdýrir. Við vitum að stofnanir búa mjög misjafnlega hvað varðar húsnæði. Sumar eru í leiguhúsnæði, aðrar í eigin húsnæði og kostnaðurinn er afar misjafn. Hefur verið gerð úttekt á því hver kostnaðurinn er á hvern starfsmann hjá ríkisstofnunum og hefur verið reynt að finna út einhvers konar reiknireglu sem hægt er að nota til viðmiðunar þegar framlög til stofnana eru ákveðin?

Mér heyrðist á starfsmönnum fjmrn. að það hefði ekki verið gert og ég tel reyndar, virðulegi forseti, að það sé mjög margt eftir í þeirri grunnvinnu sem þarf að eiga sér stað áður en rammafjárlög og þau vinnubrögð sem við viljum gjarnan viðhafa hér virki að fullu.

Hér kom mjög merk yfirlýsing úr ræðustól í morgun frá virðulegum forseta þingsins þar sem hann sagði okkur hv. þingmönnum að hann gæti ekki treyst framkvæmdarvaldinu þegar um væri að ræða fjárveitingar til Alþingis og að hann gæti ekki heldur treyst fjárln. Alþingis í vinnu hennar varðandi úttektir, eftirlit og síðan tillögur um framlög til starfsemi eða framkvæmda Alþingis.

Þar á ofan sagði hæstv. forseti þingsins að hann treysti ekki heldur á eftirlit Framkvæmdasýslu ríkisins með framkvæmdum hjá Alþingi og þess vegna hefði yfirstjórn Alþingis bara tekið að sér þetta eftirlit sjálf, yfirstjórn Alþingis ætlaði að fara með eftirlitið þar sem hún treysti ekki Framkvæmdasýslu ríkisins.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Er það ekki þannig að við búum hér við ákveðin lög sem lúta að m.a. eftirliti með framkvæmdum á vegum ríkisins og að Alþingi og framkvæmdir á vegum Alþingis falli undir þau lög? Ef það er þannig, sem við höfum orðið vör við að undanförnu, að pottur er brotinn hvað varðar eftirlit Framkvæmdasýslu ríkisins með framkvæmdum, þarf þá ekki að taka lögin um Framkvæmdasýsluna til endurskoðunar og það strax? En á meðan þau eru í gildi verðum við að fara að þeim leikreglum sem við höfum sett okkur þangað til þeim verður breytt. Við hunsum þær ekki og það gerir Alþingi ekki heldur.

Hæstv. forseti sagði að hann hefði treyst á að söluandvirði húseignar Alþingis, þ.e. Skólabrú, færi til framkvæmda hér á Alþingi. Nú skilst mér að búið sé að selja eignina að Skólabrú. Á hvað var eignin seld? Um hvaða fjárhæðir er að ræða? Í hvað rann eða í hvað á söluandvirði þeirrar húseignar að renna? Hvað fékkst fyrir hana? Hver keypti hana? Slíkar spurningar hljóta að vakna eftir þessa komu hæstv. forseta Alþingis í ræðustól. Og sú yfirlýsing eða sá dómur sem hæstv. forseti felldi hér yfir framkvæmdarvaldinu og yfir fjárln. Alþingis, nefndarstarfi Alþingis, var alls ekkert léttvægur. Það er mjög alvarlegt þegar hæstv. forseti þingsins lætur þau orð falla sem hann gerði hér úr ræðustól áðan. Það er mjög alvarlegt. Við hljótum að hugsa um það og við hljótum að ræða það hvernig a.m.k. við hv. þm. sem sitjum í fjárln. Alþingis, höfum brugðist hvað varðar eftirlit og hvað varðar tillögur og framlög til Alþingis, bæði til að reka Alþingi og til þeirra framkvæmda sem hafa staðið yfir og standa fyrir dyrum. Við hljótum, virðulegi forseti, að taka það til umræðu í fjárln. hvað það var sem þarna brást að mati forseta og óska eftir skýringum frá forsn. um þau efni. Ég kem þeirri ósk minni hér með á framfæri, virðulegi forseti, að fjárln. fái skriflegar skýringar á því hvað fólst í orðum hæstv. forseta Alþingis áðan.

Ég ætla síðan að fara örstutt yfir vegna þess að ég nefndi þennan lið 09-990 Ríkisstjórnarákvarðanir, þar sem um er að ræða pott upp á 200 milljónir fyrir utan safnliði einstaka ráðuneytis, aðeins að nefna þær tillögur sem koma frá einstökum ráðuneytum og þá fyrst frá fjmrn., frá ríkisstjórninni þar sem er óskað eftir heimildum, nýjum heimildum í 4. gr. frv.

Þar segir í fyrsta lagi, með leyfi forseta:

,,Sótt er um heimild til að fella niður virðisaukaskatt af efniskostnaði og sérfræðiþjónustu sem keypt er fyrir styrktarfé vegna rannsóknar Hjartaverndar á heilbrigði öldrunar. Heimildin er til komin vegna umfangsmikillar rannsóknar sem Hjartavernd stendur fyrir í samvinnu við erlenda aðila og er reiknað með að hún standi yfir um nokkurra ára skeið. Rannsóknin hófst á þessu ári og er því sótt um heimild í fjáraukalögum vegna þess kostnaðar.``

Var sótt um þessa heimild í aðdraganda þess að fjárlög fyrir þetta ár voru afgeidd? Lágu þessar upplýsingar fyrir þegar fjárlög fyrir árið 2001 voru samþykkt?

Síðan er hér önnur heimild eða ósk sem vekur athygli. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Heimildir 7.30--7.32 eru vegna kaupa á fasteignum. Þröngt hefur verið um Skipulagsstofnun að Laugavegi 166 og er sótt um heimild til kaupa hluta af Laugavegi 164 en ríkissjóður á nú þegar helming þess. Auðvelt er að opna á milli þessara tveggja eignarhluta.``

Upplýst var á fundi fjárln. að þó að svona þröngt sé um Skipulagsstofnun stæði samt ekki til að hún flytti strax í þetta nýja húsnæði. Þess vegna spyr ég, virðulegi forseti: Mætti þessi heimild ekki bíða þar til fjárlög fyrir árið 2002 verða afgreidd?

[14:00]

Þá kemur að því sem ég kallaði tittlingaskít áðan, þ.e. óskir einstakra ráðuneyta um þessi smáu framlög sem ég hélt að ætti að mæta úr þessum sameiginlega potti sem ríkisstjórnin hefur og af safnliðum einstakra ráðuneyta. Ef við byrjum t.d. á Æðstu stjórn ríkisins, Opinberar heimsóknir, þá er lögð til aukafjárveiting að fjárhæð 7 millj. kr. til að mæta kostnaði vegna aukinna umsvifa í rekstri embættisins, þ.e. embætti forseta Íslands, árið 2000, sem stöfuðu einkum af atburðum tengdum hátíðahöldum og opinberum heimsóknum.

Nú hljóta heimsóknir forseta Íslands að vera skipulagðar með nokkurra mánaða fyrirvara og eins þau hátíðahöld sem forsetinn tekur þátt í. Það er alveg með ólíkindum, virðulegi forseti, að það skuli þurfa að koma upp aftur og aftur að lögð sé til aukafjárveiting vegna aukinna umsvifa í opinberum heimsóknum. Rammafjárlög fela í sér að er settur ákveðinn rammi og forseti Íslands eins og aðrir eiga að halda sig innan þess ramma og miða kostnaðaráætlanir sínar við hann í upphafi hvers árs.

Undir forsætisráðuneyti er liðurinn Ýmis verkefni þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Farið er fram á 300 millj. kr. aukafjárveitingu til tveggja viðfangsefna á þessum lið.

1.15 Útboðs- og einkavæðingarverkefni. Lagt er til að veitt verði 300 millj. kr. aukafjárveiting vegna kostnaðar við sölu á hlutabréfum ríkisins. Um er að ræða kostnað vegna ráðgjafar, umsjónar með sölu og frágangi skjala.``

Virðulegi forseti. Þarna hefði mér fundist að eðlilegt að söluandvirðið væri notað til þess að mæta þessum kostnaði svo ekki þyrfti að koma til aukafjárveiting þess vegna.

Síðan vil ég nefna t.d. utanrrn. Undir liðnum Yfirstjórn er sótt um 2 millj. kr. fjárveitingu vegna fyrirhugaðrar formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 27. febrúar sl. að Ísland taki að sér formennsku í ráðinu. Þá hefur væntanlega eitthvað verið eftir af 200 millj. kr. pottinum og safnliðunum. Ef menn hafa samþykkt þetta 27. febrúar --- svipað gildir reyndar um margar aðrar ákvarðanir sem teknar hafa verið þar sem verið er að biðja um framlög til í þessu fjáraukalagafrv. Á þeim tíma hefur líklega eitthvað verið eftir á þessum safnliðum og þá hefðu menn átt að taka frá fjármagn til þess að mæta þeim ákvörðunum sem voru teknar til þess að standa straum af kostnaði þeirra. Það hefur ekki verið gert.

Það er hægt að fara svona yfir þessi verkefni, t.d. varðandi landbrn. Þar er liðurinn Ýmis verkefni þar sem lagt er til að veittar verði 4 millj. kr. í eitt verkefni og svo 4,2 millj. kr. framlag til úttektar á hugsanlegri hættu neytenda af neyslu vara sem innihalda innflutt nautakjöt eða nautakjötsafurðir í kjölfar kúariðu í Evrópu. Þetta er líka búið að liggja fyrir mánuðum saman og landbrn. hefði átt að mæta þessu af sínum safnliðum.

Virðulegi forseti. Þannig væri hægt að fara yfir fjölmörg verkefni en ég læt það bíða betri tíma vegna þess að það segir sig sjálft að þegar um rammafjárlög er að ræða þá eiga hæstv. fagráðherrar að vera viðstaddir umræðu um þau atriði sem varða þeirra ráðuneyti.