Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 14:21:23 (573)

2001-10-16 14:21:23# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Mér er nokkur vandi á höndum. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. sjútvrh. yrði viðstaddur ræðu mína. (Gripið fram í: Kalla á hann, kalla á hann.) Að vísu er fulltrúi hans kannski mættur hér, ég veit ekki hvort eindrægnin eftir landsfund Sjálfstfl. er slík að hv. þm. Einar Oddur gæti verið fulltrúi sjávarútvegsráðherrans í umræðunni. (EOK: Hvaða skens er þetta?) Nú, svör hv. þm. eru þau að þetta sé skens þannig að það gengur þá ekki upp, hæstv. forseti.

(Forseti (GÁS): Forseti vill upplýsa að hæstv. ráðherra er ekki í húsi en forseti mun, ef hv. þm. óskar eftir, reyna að hafa upp á honum --- hann mun vera væntanlegur á hverri stundu.)

Ég þakka fyrir það. Ég ætla þá að ræða aðra hluti á meðan og þá fyrst það að þessi umræða er nú búin að standa þó nokkurn tíma og er komin í gang aftur. Hún hefur farið nokkuð vítt um. Gagnrýni á þá tillögu sem við ræðum hér hefur ekki verið mjög mikil og reyndar er það þannig að þessi tillaga, þ.e. innköllun eða fyrning veiðiheimilda eins og menn vilja kalla núna, hefur átt vaxandi fylgi að fagna. Fleiri og fleiri eru að komast að þeirri niðurstöðu að eina leiðin út úr þeim ógöngum sem við erum í í sjávarútvegsmálunum, a.m.k. áður en menn geti breytt fiskveiðistjórnarkerfinu ef menn vilja gera þá hluti eða til þess að viðhalda aflamarkskerfinu ef menn vilja það, sé fyrningarleiðin. Og hvernig sem menn líta á hina eiginlegu fiskveiðistjórn og hvernig eigi að fara að gagnvart henni sjá allir vandann sem er í því fólginn að kalla veiðiheimildirnar til baka af útgerðinni sem fyrir er, hvort sem það er vegna þess að menn ætli að breyta sjálfu fiskveiðistjórnarkerfinu eða af því að menn vilja koma á réttlæti og jafnræði til þess að nýta auðlindina, eins og er aðalgrunnurinn undir þessari tillögu okkar. Við höfum þó alls ekki útilokað neinar aðrar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Og ég vil ítreka það svo það sé alveg skýrt að við höfum alla tíð verið til viðræðu um það að hafa öðruvísi fiskveiðistjórnarkerfi á t.d. smábátunum heldur en á öðrum hlutum flotans.

Og við höfum líka verið afar jákvæðir gagnvart því að menn settust virkilega vandlega yfir niðurstöðurnar af þessu aflamarkskerfi sem við höfum búið við undanfarin ár og skoðuðu það nákvæmlega. Því það hefur svo sannarlega ekki skilað miklum árangri. Mig langar í því sambandi til þess að fara yfir fáeinar tölur.

Í upphafi þings var hér útbýtt Þjóðhagsáætlun. Á næstaftasta blaði hennar innanverðu er tafla, Afli og aflaverðmæti 1994--2002, þ.e. áætluð veiði á þessu fiskveiðiári. Og þar kemur það mjög skýrt í ljós hver breytingin er á leyfðum veiðum á þessum tíma. Þarna hefur kerfið virkað alveg eins og menn ætluðust til allan tímann. Og ég ætla að fara yfir töfluna til þess að glöggva þá sem ekki hafa séð hana.

Í þorskinum er núna gert ráð fyrir að veiða 9.000 tonnum minna en árið 1994 og þótti nú mörgum illa komið þá.

Í ýsunni er verið að leggja til að veitt verði 23.000 tonnum minna, 58.000 voru það 1994 en núna er lagt til að 35.000 tonn verði veidd.

Í ufsanum er verið að leggja til helmingi minni veiði en var á árinu 1994, þ.e. 31.000 tonn en 63.000 voru þau á árinu 1994.

Í karfanum voru það 95.000 1994 en 25.000 tonnum minna núna. Í úthafskarfanum er þetta svipuð veiði, 2.000 tonnum minna.

Í steinbítnum er nákvæmlega sama tala og var 1994.

Í grálúðunni er það 8.000 tonnum minna en 1994.

Í skarkolanum er það 7.000 tonnum minna, það voru 12.000 tonn 1994 en 5.000 tonn núna.

Svona er öll taflan nema hvað varðar síld, loðnu og kolmunna. Við stöndum frammi fyrir því að árangurinn er aftur á bak í öllum tegundunum. Full ástæða er til þess að menn skoði vandlega þetta kerfi sem veiðistjórnarkerfi. Ef menn kæmust síðan að þeirri niðurstöðu að þetta kerfi væri ekki heppilegt sem veiðistjórnarkerfi væru góð ráð dýr. Ekki hoppa menn á augabragði út úr þessu kerfi með því eignarhaldi sem búið er að koma á veiðiheimildirnar. Þetta er ein af röksemdunum sem hlýtur líka að þurfa að horfa á. En auðvitað eru aðrar röksemdir að mínu viti enn þá veigameiri eins og þær að auðvitað þarf að vera jafnræði til atvinnu á Íslandi. Og það þarf réttlæti fyrir byggðarlög og þá sem stunda þennan atvinnuveg.

Ég var að vona að hæstv. ráðherra kæmi nú í salinn svo ég gæti spurt hann nokkurra spurninga. Veit hæstv. forseti nokkuð um ...?

(Forseti (GÁS): Ekki frekar en fyrr, hann mun vera á leiðinni samkvæmt boðum sem frá honum hafa komið en ekki er hann kominn í hús samkvæmt upplýsingum á skjá forseta.)

Hæstv. forseti. Það er nú nokkuð farið að líða á tíma minn og ég hefði gjarnan viljað koma að þeim spurningum sem ég ætlaði að leggja fyrir hæstv. ráðherra áður en ræðu minni lyki. Ég ætla því að hinkra áður en henni lýkur alveg og sjá hvort ráðherrann verður kominn.

En landsfundur Sjálfstæðisflokksins var haldinn núna fyrir helgina og fram á helgina og menn tóku auðvitað mjög eftir því hvað þar var að gerast í sjávarútvegsmálum. Þar var tekist á um framhald þeirra mála. Ég hlustaði á ræðu hæstv. sjútvrh. sem hann flutti þegar við vorum að ræða þetta mál ...

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar, hann hefur fengið nýjar upplýsingar um stöðu mála hjá ráðherra. Hann mun vera á leiðinni og kemur eftir fimm til sex mínútur. Ég sé hins vegar á töflu minni að hv. þm. á eingöngu sex og hálfa mínútu eftir. Forseti vill bjóða hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni.)

Hæstv. forseti. Ég ætla að þiggja það.

(Forseti (GÁS): Það verður gert fimm mínútna hlé á þessum fundi.)