Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 15:50:26 (589)

2001-10-16 15:50:26# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ekki hafði ég hugsað mér að leggja orð í belg í þessari umræðu en þó fer það svo að gömlum Vestfirðingi rennur blóðið til skyldunnar í þeirri umræðu sem hér fer fram og svo sannarlega hefði ég viljað sjá fleiri í þessum þingsal taka þátt í umræðu um sjávarútvegsmál, fleiri ræða þetta stóra hagsmunamál og hvernig á að leysa það. Ég hefði viljað sjá fjölda sjálfstæðismanna hér í þessum sal fara yfir það hvað felst í tillögum og niðurstöðu landsfundar þeirra um sjávarútvegsmál og veiðigjaldið sem menn ætla að sameinast um að taka upp. Ég hefði viljað heyra þá útskýra af hverju það er ásættanlegt. Ég hefði viljað heyra þá lýsa því hverju við megum búast við, hver raunveruleikinn sé á bak við þá niðurstöðu sem menn hafa kallað sátt í Sjálfstfl., sáttatillöguna sem varð til þess að öflugir menn með sterkar skoðanir í sjávarútvegsmálum og stjórn fiskveiða hafa sagt skilið við og kvatt flokkinn. Og ekki þeir fyrstu sem það hafa gert, einmitt vegna þess hvernig flokkurinn hefur haldið á málum.

Það er umhugsunarefni hve litlu stjórnarliðar láta sig þessa umræðu varða, jafnstórt og þetta mál er, stjórn fiskveiða, auðlindin, óveiddi fiskurinn, eignarhaldið á honum, og hvað þeir taka lítinn þátt í henni hverju sinni sem hún er tekin hér upp. Það er í raun og veru að mestum hluta stjórnarandstaðan sem ræðir málin og það er frekar blæbrigðamunur á afstöðu þingmanna í stjórnarandstöðunni en meginmunur. Meginmunurinn er um það hver á óveidda fiskinn í sjónum og hver hefur ráðstöfunarrétt yfir honum, hvort við ættum að kalla hann til baka til eigendanna, þjóðarinnar, eða hvort við ætlum að viðhalda því kerfi sem hefur orðið til, meira eða minna rekist áfram frá því að kvótakerfið var sett á laggirnar á sínum tíma og með þeim aðgerðum sem hafa verið lögfestar í þessum sal og gert það að verkum að við stöndum þar sem við stöndum í dag.

Samfylkingin hefur skoðað mjög vel þróun mála í sjávarútveginum sl. áratugi og farið yfir það með hvaða hætti eigi að fjalla um þessi mál og hvert við viljum fara. Við erum sannfærð um að sú leið sem hefur verið kynnt í frv. okkar, sem Jóhann Ársælsson mælti fyrir og við erum í framhaldsumræðu um, sé leiðin sem á að fara, að fyrningarleiðin skili okkur þangað einhvern daginn í framtíðinni að ákveðnu réttlæti hafi verið fullnægt, að við höfum sótt eignina okkar, eign fjöldans, og förum með hana eins og á að fara með sameign, að við lánum hana, að við veitum heimild til að veiða hana, að við hleypum duglegum og þróttmiklum sjómönnum í auðlindina til þess að sækja björg í bú og skaffa okkur þau auðæfi sem þessi þjóð á að eiga og deila með sér.

Það er umdeilanlegt hvaða árabil er það rétta. Við höfum stungið upp á 10 árum. Við höfum lagt til að unnt sé að innleysa kvótann á 10 árum en í nefndinni um stjórn fiskveiða sem hæstv. sjútvrh. setti á laggir í kjölfar niðurstöðu auðlindanefndar fór það reyndar svo að við ákváðum að tefla fram eins og unnt væri þessari lausn okkar og frekar að leita sátta með því að leggja til lengra tímabil til að ná inn eignum þjóðarinnar heldur en það sem við höfum talið ásættanlegt, allt í nafni sátta, í nafni þess að komast inn í þessa framtíðarsýn sem við erum sannfærð um að sé það sem þessi þjóð þarf.

Við gerum okkur alveg grein fyrir því að flokkur setur fram stefnu en það þarf, ef reyna á að ná samstöðu um stefnuna, oft að slá af og það þarf að reyna að leita leiða til þess að ná samstöðu um réttu leiðina jafnvel þó að hægar sé farið en kosið er. En það dugði ekki í þessu tilfelli. Þess vegna erum við þar stödd að við eigum væntanlega eftir að sjá tillögur útfærðar í kjölfar landsfundar Sjálfstfl. koma inn á þingið náist samstaða í ríkisstjórn um að fara þá leið. Við fáum væntanlega að heyra það allt hér á eftir þegar hæstv. sjútvrh. tekur til máls í þessari umræðu.

Spurt hefur verið: Hvernig á landsbyggðin að ráða við fyrningarleiðina? Hvernig á landsbyggðin að ráða við það að kvóta sem hún á sé skilað inn? En landsbyggðin hefur farið hræðilega illa út úr því kerfi sem við erum með í dag. Þeir sem hafa haft umráðarétt yfir kvótanum og talið sig eiga hann og hafa heimild til að ráðstafa honum hafa hvað eftir annað farið með lífsbjörgina úr byggðarlaginu og menn hafa ráðstafað þessari eign að eigin geðþótta og látið sig það einu gilda hvað það hefur þýtt fyrir heimabyggðina. Þegar á reynir verður eigin budda þyngri á vogarskálinni en hagsmunir byggðarlagsins. Og kvótagróðinn hefur hrannast upp eins og menn hafa bent hér á og það er athyglisvert að þegar skyggnst er á bak við eignarhlut í hinum ýmsu mannvirkjum eða í sjóðunum koma nöfn slíkra ósjaldan upp.

Ég ætla að staldra aðeins við þetta, hvað útgerðin þolir og hvað byggðarlögin þola. Kannski var ástæðan fyrir því að ég bað um orðið, herra forseti, að í sumar skrifaði Magnús Jónsson afskaplega athyglisverða grein sem vakti mjög mikla athygli. Hluti af þeirri grein fjallar um afskriftaleikinn og ég tel að sá kafli eigi erindi inn í þessa umræðu. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa þennan kafla:

,,Til að skilja hvað átt hefur sér stað síðustu tíu árin eða svo er nauðsynlegt að setja upp dæmi og skoða laga- og reglurammana sem gilt hafa á mismunandi tímum þessa tímabils. Dæmið sem ég tek er um tvær útgerðir, A og B, sem hvor um sig átti einn góðan togara, og fengu úthlutað 2.000 þorskígildistonnum hvor í fyrstu úthlutun eftir nýjum lögum frá 1990. Á þessum tíma fólust engin bókhaldsleg verðmæti í úthlutuðum aflaheimildum. Fljótlega fóru hins vegar að eiga sér stað kaup- eða leiguviðskipti með kvótann. Verð á óveiddum fiski varð til á gervimarkaði og þeir sem keyptu, töldu sig vera að leggja fé í varanlega eign sem hlyti að mega afskrifa rétt eins og aðrar eignir. Úthlutaðar aflaheimildir mátti hins vegar í fyrstu hvorki afskrifa né eignfæra. Þetta umhverfi skapaði tækifæri. Með því að A ,,seldi`` B sínar aflaheimildir og B ,,seldi`` A sínar án nokkurra raunverulegra fjármagnstilfærslna, varð til 2.000 tonna afskrifanleg kvótaeign hjá báðum auk þess sem ,,salan`` skapaði tekjur í bókhaldi beggja. Bókfært verð kvótaeignarinnar var smám saman hækkað upp í það sem skattayfirvöld og lánastofnanir þoldu. Þau mörk hafa verið um 1 milljón króna á tonn af óveiddum þorski og því varð til afskriftarstofn kvótaeignar upp á allt að 2 milljarða króna hjá hvoru fyrirtækjanna. Afskriftir upp á 20% eða 400 milljónir króna færðust árlega á ,,gjaldareikning`` beggja fyrirtækjanna. Þau urðu tekjuskattslaus og söfnuðu jafnvel inneign á ,,ónýttu tapi``. Svona meðgjöf skattgreiðendanna var síðan notuð til að fyrirtækin gætu keypt nýjar aflaheimildir og stækkað eignastofninn. Bæði fyrirtækin, A og B, keyptu þannig 500 tonn til viðbótar og bókfærð kvótaeign þeirra fór úr 2 milljörðum í 2,5 milljarða króna.

[16:00]

Þrátt fyrir að togari hvors fyrirtækis væri aðeins 1 milljarðs virði var bókfærð ,,eign` eftir þessi fáu ár orðin 3,5 milljarðar króna hjá hvoru. Allt var þetta löglegt.

Undir ,,afskriftalekann`` var sett með lögum nr. 118/1997. En enn þá voru ónýttir möguleikar kvótakerfisins. Fyrirtækjunum, sem bæði höfðu verið einkafyrirtæki, var nú breytt í hlutafélög og þau síðan sameinuð í AB hf. Fyrirtækið með 7 milljarða eign fór á hlutabréfamarkað og voru 40% boðin til kaups. Gengi bréfanna var 1,2 og á næstu vikum runnu liðlega 3 milljarðar króna inn í rekstur fyrirtækisins, sem var í reynd áfram að fullu undir stjórn fyrri eiganda einkafyrirtækjanna, enda áttu þeir 60% hluta þess. Enn var keyptur kvóti og nú nýtt skip. Þegar upp var staðið var AB hf. orðið einn af útgerðarrisunum með 7 þúsund tonna kvóta og þrjá togara og ,,markaðsvirði`` upp á um 10 milljarða króna. Og allt var þetta löglegt.``

Kannast einhver við frásögnina þó fjárhæðirnar séu e.t.v. aðrar og önnur nöfn sett á skipin?

Herra forseti. Þessi grein er einkar fróðleg og vakti verðskuldaða athygli þegar hún birtist. Ég ætla ekki að lesa hana alla upp. Ég hvet þá þingmenn sem til mín heyra til að gera það. Þar er auðvitað farið yfir það hvað menn notuðu svo þennan mikla gróða í, hvort heldur var verðmætt byggingarland, eyjar, firðir, verslunarhallir, laxeldi, fótboltafélög eða annað. En ég ætla að grípa aðeins niður á öðrum stað í greininni:

,,En hver seldi viðbótarkvótana og hvaða afleiðingar hefur ofanlýst atburðarás haft á þjóðfélagsgerð okkar? Þegar margir eigendur smærri útgerða sáu, að ótrúlega fjármuni var hægt að fá fyrir kvótann, jafnvel hundruð milljóna fyrir kvóta lítils báts, stóðust þeir ekki freistinguna að selja og lái ég þeim það ekki. Helför litlu sjávarplássanna hófst, lífsbjörgin var seld, lífæð þorpanna klippt í sundur og rétturinn til sjálfsbjargar var á bak og burt. Enginn rekstrargrundvöllur var fyrir nýliða að kaupa bát og kvóta á milljón krónur tonnið af óveiddum fiski. Allt í einu stóðu ættmenn, vinir og vinnufélagar frammi fyrir því að einn úr hópi þeirra gat gengið út sem moldríkur maður á sama tíma og hinir stóðu eftir réttlausir, án atvinnu og eignalausir.``

Herra forseti. Hér er líka hægt að setja nöfn á byggðarlögin. Hér gæti ég nefnt nöfn úr hópi fólks sem ég þekki.

Herra forseti. Þetta er kerfið sem Sjálfstfl. hefur nýlega tekið ákvörðun um að viðhalda. Þetta er kerfið sem Sjálfstfl. hefur ekki leyfi til að víkja frá. Þetta er kerfið þar sem taka á lítið skref, sem við hljótum út af fyrir sig að fagna, með því að setja á veiðigjald. Við fögnum því svo fremi sem það verður ekki bara óbreytt ástand með því að það sé verið að sækja það sama og áður var sótt í Þróunarsjóð. Það verður fróðlegt að heyra hvað sjútvrh. segir okkur um það litla skref, um hvernig hann meti hvað útgerðin þolir. Við höfum undanfarið fengið að heyra af hálfu þessara aðila hvað útgerðin þolir.

Það hefur verið nefnt hér af hverju ekki hafi verið hægt að sækja til útgerðarinnar með sköttum það sem menn telja að hún skuldi samfélaginu fyrir að valta og skalta með sameignina. Guðmundur Árni Stefánsson bar fram fyrirspurn fyrir ári síðan um skattgreiðslur útgerðarinnar. Það varð uppi fótur og fit. Auðvitað höfðu engir skattar verið greiddir. Auðvitað er það þannig hjá þessum fyrirtækjum, sem eru með allt á bókhaldsfætinum, að þar fer ekkert til baka. Skattarnir voru varla vinnukonuskattar. Ég held að samanlagt hafi verið, ef ég man það rétt, eitthvað um 200 millj. kr. sem komu í skatta frá útgerðinni í heild sinni.

Það segir okkur það sem segja þarf og þessi saga segir okkur að það verður að breyta þessu kerfi. Þessi saga segir okkur að þó að stíga eigi lítið skref, smáhænufet, sem við eigum að fagna vegna þess að dropinn holar steininn. Á þessum landsfundi gerði Sjálfstfl. sér grein fyrir því að hann gæti ekki horfið af vettvangi öðruvísi en gera einhverja samþykkt sem gæti virkað eins og skref í þá átt sem þjóðin krefst að farið verði. Satt best að segja er það svo að þessi þjóð lítur á eitt mál ofar öðrum sem mesta óréttlæti sem yfir hana hefur dunið, þ.e. að örfáir útvaldir skulu hafa ráðstöfunarrétt á óveiddum fiskinum og ráða verðlaginu á honum óveiddum, taka allan afraksturinn af honum í sína eigin þágu. Það er stærsta óréttlæti okkar tíma og þess vegna skildi Sjálfstfl. sinn vitjunartíma.

Við höfum verið hávær. Við höfum sagt að nú verði ekki lengur við unað. Nú skal greiða fyrir aðgang að auðlindinni. Ég tel að það sé fyrst og fremst okkar málstaður sem hefur gert það að verkum að núna kemur Sjálfstfl. út af landsfundi með tillögu um greiðslu fyrir afnot af auðlindinni. Ég hlakka til að heyra sjútvrh. skýra okkur frá því hvaða fjárhæðir menn ætli að innheimta fyrir auðlindina okkar. Ég hlakka til að heyra hann segja okkur hvort þessi samþykkt sé undir sömu sök seld og aðrar samþykktir frá landsfundi Sjálfstfl. í velferðarmálum sem við höfum innt sjálfstæðismenn eftir og þeir sagt: Það er sitt hvað, landsfundarsamþykkt eða stjórnarstefna. Nú bíðum við spennt. Er þetta bara landsfundarsamþykkt eða verður þetta stjórnarstefna hjá stóra flokknum sem nú hefur tekið hænufet?