Nýtt byggðakort ESA á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:32:10 (669)

2001-10-17 14:32:10# 127. lþ. 13.10 fundur 121. mál: #A nýtt byggðakort ESA á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:32]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Þetta mál er í raun ósköp einfalt. Það var unnið að því af fullum heiðarleika í ráðuneytinu. Hins vegar hef ég sagt við sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og get endurtekið það hér að upplýsingagjöf hefði alveg mátt vera betri af minni hálfu og ráðuneytisins. Það skal ég alveg viðurkenna.

Aðalatriðið er að við börðumst fyrir hagsmunum Reyknesinga eins og kostur var. En þetta varð engu að síður niðurstaða þessarar stofnunar sem við þurfum að beygja okkur undir og ég veit ekki betur en þeir tveir hv. þm. sem hér hafa talað hafi verið fylgjandi því að við yrðum aðilar að EES-samningnum, a.m.k. eru þeir í flokkum sem eru í dag býsna tengdir og jákvæðir gagnvart honum. Svona eru staðreyndirnar. Að vera að tala um sjávarútveg í Sandgerði í þessu sambandi er náttúrlega ekki sanngjarnt og það segir mér að hv. þm. hefur ekki hlustað á það sem ég sagði því að sjávarútvegur kemur þarna ekki við sögu þar sem hann er utan EES-samningsins.

Eitt af því sem ESA setur sem skilyrði og vinnur eftir er fólksfjöldi í viðkomandi sveitarfélagi. Nú er það svo að Vatnsleysustrandarhreppur sem þarna kemur inn á milli hefði í raun átt að vera innan byggðakortsins vegna þess að þar býr ekki fleira fólk en raun ber vitni. En af því að stofnunin gerir kröfur um að svæðin séu samfelld, að ekki komi auðir blettir inn á milli, þá lendir Vatnsleysustrandarhreppur inni á þessu svæði sem ekki telst byggðakort. Ég held að það þýði ekkert að vera að rökræða þetta hér. Við þurfum bara að fara að þessum reglum. Við höfum barist eins og við höfum getað fyrir því að halda þessu sem minnst breyttu frá því sem áður var. Engu að síður stöndum við frammi fyrir staðreyndum í þessu máli. Þetta mál var tvívegis rætt í ríkisstjórn og samstaða var um það þar.