Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 17:43:15 (878)

2001-10-30 17:43:15# 127. lþ. 16.19 fundur 185. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þau afbrot sem við ræðum um, annars vegar sifjaspell og hins vegar þetta sérstaka ákvæði um fortakslaust bann við kaupum á kynlífsþjónustu hvers konar af ungmennum yngri en 18 ára, eru tvenns konar afbrot. Mér finnst hins vegar sjálfsagt að við skoðum öll þessi ákvæði. Raunar eru þau sífellt í endurskoðun, sérstaklega þeir kaflar hegningarlaganna sem snúa að kynferðisbrotum.

Sérfræðinganefndin sem ég nefndi áðan, sem er að skoða ýmis mál í kjölfar vændisskýrslunnar og skýrslu sem kom út um samanburð á lagaumhverfi varðandi klám á Norðurlöndum, er að fara yfir ýmsa þætti þessara mála, sérstaklega sem snúa að kynferðisbrotum gagnvart börnum. Ég vil líka nefna það að í þessu frv. er fjallað um vörslu á barnaklámi. Vitaskuld er það afbrot sem snýr að dreifingu í raun miklu alvarlegra mál. Ég held að það þurfi að skoða það ákvæði líka sérstaklega.

Eins og ég sagði áðan erum við að stíga fyrsta skrefið í endurskoðun á þessari löggjöf og við eigum eftir að sjá hvaða tillögur koma frá nefndinni en þar eru ýmis mál í sérstakri athugun.