Rekstur vélar Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 13:45:16 (898)

2001-10-31 13:45:16# 127. lþ. 17.91 fundur 86#B rekstur vélar Flugmálastjórnar# (aths. um störf þingsins), TIO
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Tilefnið að þessum umræðum er sú beiðni sem hv. þm. Gísli S. Einarsson kom fram með innan fjárln. um að nefndin taki til rannsóknar sérstaklega loggbók Flugmálastjórnar. Þessari beiðni fylgdi enginn rökstuðningur. Það var ekki hægt að fá nein gögn um það á hvaða grundvelli væri farið fram á það að fjárln. blandaði sér í þetta mál. Það kom heldur ekki fram ein einasta skýring á því hvers vegna ágætur þingmaður, hv. þm. Gísli S. Einarsson, fór ekki þá leið sem honum er opin, að snúa sér til Ríkisendurskoðunar til að fá þessar upplýsingar. Og það skortir enn í þessum þingsal á skýringar á því hvers vegna þingmaðurinn fer ekki þær leiðir sem honum eru opnar og hvers vegna í ósköpunum þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir að þingmönnum sé meinað að vinna störf sín á þessum grundvelli.