Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 10:53:38 (963)

2001-11-01 10:53:38# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[10:53]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka undir það með öðrum sem hafa talað að það frv. sem hér er flutt er tímabært og í sjálfu sér meira í takt við tímann, að umhverfisvernd og annað sem lýtur að samskiptum ríkis og fagaðila í sambandi við náttúruvernd sé meira á daglegum grunni og fari í gegnum stofnanir sem heyra undir ríkið frekar en í gegnum Náttúruverndarráð sem þróaðist úr því að vera eina hálfopinbera stofnunin á sínum tíma, sem gat fjallað um þessi mál og verið ráðgefandi fyrir ríkisstjórnina, út í það að vera mjög ósveigjanleg og öfgafull samtök að mörgu leyti og lögðust eindregið gegn stjórnvöldum og gegndu kannski ekki alveg því hlutverki sínu að vera ráðgefandi fyrir vikið. Auðvitað voru þar á meðal mjög virtir einstaklingar sem gerðu þetta að sjálfsögðu allt með því hugarfari að vera náttúruunnendur og töldu réttmætt að láta það ljós sitt skína í Náttúruverndarráði. En eigi að síður má e.t.v. segja að með tímanum hafi risið upp frjáls félagasamtök sem geti einmitt rúmað slíkar skoðanir og þar með sé það starf sem farið var að þróast innan Náttúruverndarráðs miklu betur komið innan frjálsra félagasamtaka sem njóta vaxandi stuðnings opinberra aðila. Það hefur verið yfirlýst markmið og frv. liggja hér frammi í þinginu um að reyna með öllum hætti að styrkja frjáls félagasamtök um náttúruvernd og annað sem lýtur að málefnum umhverfisins svo að þau geti unnið þannig að þau hafi fulla burði til þess að veita aðhald.

Náttúruvernd ríkisins er að sjálfsögðu sú stofnun sem stjórnvöld hljóta að nota sem sína fagstofnun á sviði umhverfismála. Náttúruverndarþing er þá í framhaldinu mjög góð lending þar sem allir þeir hópar sem vilja láta frá sér heyra og kynna málefni sín geta gert það á slíku þingi sem boðað er til af hálfu umhvrh. Ég held að allir umhverfissinnar séu fullsæmdir að koma á slík þing.

Ég legg til að túlkunin á því hvað eru frjáls félagasamtök yrði mjög rúm, því það er oft erfitt að átta sig á því hverjir í raun eru frjáls félagasamtök. Ég sé t.d. fyrir mér að ferðamálasamtök hvers konar gætu flokkast undir þennan hóp að hafa umhverfismál á stefnuskrá sinni þó að það sé ekki beinlínis í samþykktum, heldur vinna öll ferðamálasamtök að því að kynna íslenska náttúru. Þau vinna einnig að því að vernda íslenska náttúru og fara gætilega um hana þannig að hún skaðist ekki og vinna að kynningu á verðmætum, bæði þeim sem gerð eru af manna höndum og náttúrulegum verðmætum sem okkur er mikils virði.

Ég mundi því telja að t.d. ferðamálasamtök, landshlutasamtök, mættu vel eiga heima þarna inni. Önnur samtök sem ég gæti einnig vel séð fyrir mér eru alls konar dýraverndunarsamtök og samtök skotveiðimanna sem hafa reyndar látið að sér kveða í sumum málum eins og í Eyjabakkamálinu forðum. Þau eru í eðli sínu til þess að gæta hagsmuna skotveiðimanna, en auðvitað fara hagsmunir allra þessara aðila saman því að allir bera ákveðna virðingu fyrir náttúrunni og vilja umgangast hana þannig að jafnvægi ríki. Þar er ekki bara eins og í þessu tilfelli um að ræða fugla og dýr, heldur hvernig aðstaða þeirra er til þess að lifa af og tímgast. Þetta fer því allt saman.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta. Ég vil þó að lokum segja aðeins fáein orð um efnistökuna. Ég held að það sé orðið nokkuð brýnt að efnistaka á landi sé skoðuð sérstaklega og að farið sé mjög varlega í að opna nýjar námur í viðkvæmu landi. Auðvitað er ekki sama hvar við erum að tala um það, en við vitum að þegar verið er að opna nýjar námur eru þær opnaðar miðað við lögin í dag að sjálfsögðu, en þá eru mörkin höfð þau að ekki þurfi að fara fram umhverfismat sem segir okkur að menn reyna ekkert að opna námur nema þær séu undir þeim mörkum að fara þurfi í umhverfismat og síðan eykst þessi námutaka smám saman og verður kannski ekki við neitt ráðið. Þegar búið er að opna eina námu verður það ekki aftur tekið. Ég held þess vegna að menn verði að velta því mjög fyrir sér í umhvn. hvernig eigi að heimila að opna nýjar námur, efnistökunámur, og allir eru held ég sammála að þar verði að fara sæmilega varlega. En auðvitað ekki til þess að setja mönnum stólinn fyrir dyrnar heldur að vinna saman að því með efnissölum og efnistökum og í sátt við umhverfið.