Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:54:31 (985)

2001-11-01 11:54:31# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:54]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað eru öll mannanna verk gagnrýnisverð. Störf Náttúruverndarráðs á hverjum tíma eiga auðvitað að sæta gagnrýni eins og störf annarra nefnda og ráða. Störf ráðsins fara líka eftir þeim mönnum sem eru kjörnir í Náttúruverndarráð en það er ekki svo að þar eigi sæti einvalalið fulltrúa einstrengingslegra félagasamtaka sem ganga hvað lengst í verndun náttúrunnar. Þar er aftur á móti mjög breiður hópur mjög hæfra manna.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, eru þær framkvæmdir sem við förum í í dag, hvort sem það eru virkjanir eða uppgræðsla, skógrækt eða hvað annað, af miklum stærri toga en við höfum haft tækni til þess að fara í áður. Því er eðlilegt að viðbrögðin, hvort sem þau koma frá Náttúruverndarráði eða öðrum, séu harðari.

Hvað varðar náttúruverndarþing þá þyrfti í raun, að mínu mati, ekki að breyta því í eitthvað sem heitir umhverfisþing. Í lögunum eru tilgreindir þeir sem m.a. þurfa að eiga sæti þar, hægt væri að breikka þann hóp miklu meira og koma fleirum að. En ef telja á þá félaga í Afl fyrir Austurland, sem gengu í náttúruverndarsamtök, þ.e. í NAUST, sem fulltrúa þeirra sem hafa verið með harða gagnrýni á Náttúruverndarráð, þá skil ég vel að hv. þm. fái margar upphringingar og ábendingar.