Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 14:33:06 (1023)

2001-11-01 14:33:06# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vantreysti ekkert Vegagerðinni í sjálfu sér. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi staði úti á landi þar sem væru leigubílar. Það er bara gott og blessað og þannig þarf það að vera. En það er náttúrlega alveg ljóst að eftirspurn eftir þessari þjónustu er kannski ekki mikil á þessum stöðum. Hún getur dottið niður eða minnkað eða viðkomandi leyfishafar flutt burt. Samt viljum við áfram að þessi þjónusta sé þar til staðar.

Þess vegna tel ég að það ættu að vera skýrari ákvæði í frv. og endanlegum lögum um að þetta sé mikilvægur þáttur í almenningssamgöngum sem beri að huga að og skipuleggja sem slíkan um allt land þannig að tryggt sé að þjónustan sé fyrir hendi, reynt að tryggja það og það markmið sett í lögin.

Lögin bera töluvert mikinn keim af því að verið sé að halda utan um þetta og sjálfsagt þarf líka að halda utan um atvinnugrein eins og þessa. En þau mættu aðeins litast af því að þetta sé almenningsþjónusta sem á að vera í boði úti um allt land þar sem þess er nokkur kostur. Það á að vera meginmarkmið laganna í þeirri umgjörð sem nauðsynleg er og við erum sammála um að þurfi að vera bæði örugg, taust og góð.