Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:50:41 (1149)

2001-11-02 16:50:41# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:50]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér reyndar á óvart að hv. þm. skuli koma hér aftur og gefa það í skyn að hér hafi einhverjir talað um algjörlega frjálsar veiðar krókabáta. Ég hef enga slíka rödd heyrt í allri umræðunni í dag, enda hygg ég að það hvarfli ekki að neinum að gefa veiðar smábáta algjörlega frjálsar. Þar þurfa að sjálfsögðu að koma til takmarkanir. Þess vegna finnst mér ekki rétt að koma hér eftir langa umræðu og draga þá ályktun af umræðunni að einhver hafi gerst talsmaður þess. Það tel ég einfaldlega ekki vera rétt.

Frystitogara telur hv. þm. ekki skipta neinu máli í þessari umræðu. En umræðan snýr nú m.a. að heildarveiði, þ.e. heildarveiði úr þessari auðlind sem skiptist niður á ýmsa útgerðarflokka, frystitogara, aflamarksbáta, smábáta og þannig má áfram telja.

Hv. þm. nefnir ekki einstaka þingmenn. Hann segir að sumir eða ýmsir, úr nokkrum kjördæmum og þar fram eftir götunum, láti sig litlu varða aflamarksbáta, vertíðarflota. Þá vil ég beina spurningu til hv. þm.: Sé staða aflamarksbáta þannig að þeir hafi gleymst á síðustu árum telur hv. þm. þá sjálfan sig enga ábyrgð bera þar á, minnugur þess --- ég held að ég muni það rétt --- að hv. þm. var talsmaður meiri hluta sjútvn. allt síðasta kjörtímabil? Hafi aflamarksbátar gleymst, sem ég held að sé ekki rétt fullyrðing hjá hv. þm., þá hlýtur það að beinast að hv. þm. sjálfum eða er það rangur skilningur hjá mér?