Loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:38:32 (1418)

2001-11-12 15:38:32# 127. lþ. 26.2 fundur 126#B loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:38]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að æsa sig hér þegar menn hafa verið að gagnrýna íslenska hagsmuni og hvernig haldið er á þeim á erlendum vettvangi. Núna þegar búið er að fá íslenska ákvæðið samþykkt, þá er eðlilegt að menn geri grein fyrir því þegar stjórnarandstaðan spyr.

Íslenska ákvæðið felur í sér 1,6 millj. tonna. Íslendingar voru með 3 millj. tonna af gróðarhúsalofttegundum 1990, fengu plús 10% sem þýðir að við eigum að halda okkur innan 3,3 millj. tonna árið 2012. Veruleg eftirgjöf varð á síðustu metrum í samningsviðræðunum úti í Marokkó og get nefnt sem dæmi að Rússland fékk 40 sinnum meira en íslenska ákvæðið felur sér á lokasprettinum, algerlega aukalega þrátt fyrir að hafa fengið eftirgjöf líka í Bonn. Af hverju fékk Rússland þetta? Jú, af því að Bandaríkjamenn eru ekki með í samningnum. Þeir losa 36%. Ef Rússland dettur líka út, þá erum við komin niður fyrir þau 55% landa sem samningurinn kveður á um að þurfi að staðfesta hann áður en Kyoto-bókunin tekur gildi þannig að Rússland gat notað vald sitt til þess að fá sitt fram.