Lagning ljósleiðara

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:21:46 (1523)

2001-11-14 14:21:46# 127. lþ. 29.4 fundur 249. mál: #A lagning ljósleiðara# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf hér. Það vekur auðvitað athygli ef sveitarfélög þurfa engin sérstök skilyrði að uppfylla til þess að íbúar þeirra fái að njóta þess jafnræðis að þar standi þessi mikilvæga þjónusta einnig til boða.

Samt er einhver svipur á þeim sveitarfélögum sem ráðherra las upp hér áðan sem bendir til þess að ekki sé alveg tilviljun hvar þetta stendur þegar til boða.

Herra forseti. Þegar ég spyr um þetta á hinu háa Alþingi þá er ég auðvitað að spyrja um Landssímann fyrst og fremst vegna þess að ég lít ekki á Landssímann eins og hvert annað fjarskiptafyrirtæki. Ég lít á Landssímann eins og hann er, þ.e. fyrirtæki sem hefur haft hér einokun á markaði áratugum saman, hefur nánast einokun enn vegna þess hversu stór hann er, hefur byggst upp af gjöldum landsmanna í gegnum tíðina og hefur skyldur við alla landsmenn, skyldur sem mér finnst að við alþingismenn eigum að líta eftir, og þær eru að íbúar landsins njóti jafnræðis þegar kemur að þjónustu.

Út frá þessu sjónarmiði, herra forseti, legg ég fram þessar fyrirspurnir. Mér finnst verulegu máli skipta að við hér séum gæslumenn almannahagsmuna og reynum eftir megni að þoka málum í þá átt að sem flestir fái notið þeirrar mikilvægu þjónustu sem felst í nýrri fjarskiptatækni. Við vitum að það hefur orðið bylting og svo verður áfram. Þróunin er mjög ör. Auðvitað gilda ekki nákvæmlega sömu lausnir nú og áður, en sambærilegar lausnir verður að bjóða fram til þess að allir fái notið.

Það er alveg ljóst að flestir ef ekki allir landsmenn vilja eiga þess kost að nýta sér ódýr og greið samskipti og það er auðvitað það sem við hljótum öll að vilja stefna að.