Iðnnám á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:27:33 (1550)

2001-11-14 15:27:33# 127. lþ. 29.7 fundur 267. mál: #A iðnnám á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Drífu Snædal fyrir að hreyfa þessu máli en svör hæstv. menntmrh. hefðu mátt vera bragðmeiri. Það er mjög alvarlegt mál, það er staðreynd, hversu dregið hefur úr sókn í verknám af eða á landsbyggðinni og skortur á iðnmenntuðu fólki er að verða sífellt meira vandamál víða í byggðum landsins. Nefna má viðvarandi skort t.d. á vélstjórum og vélstjórnarmenntuðu fólki, smiðum, bifvélavirkjum og fleiri hópum. Atvinnulíf landsbyggðarinnar og auðvitað landsins alls þarf á slíkri menntun að halda og kosturinn við að hún verði stunduð sem mest eða helst alveg í heimabyggð viðkomandi er sá, eins og kannanir og margar rannsóknir sýna, að það eykur líkurnar á því að fólk setjist þar að, og að til staðar sé þá sú menntun og slík þjónusta sem víðast í byggðum landsins. Það verður því að horfa til þess markmiðs einnig, ekki bara þess að hagkvæmast sé að koma hlutunum fyrir í einum eða örfáum stórum skólum í landinu.