Áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 10:46:32 (1590)

2001-11-15 10:46:32# 127. lþ. 30.94 fundur 145#B áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[10:46]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég þykist vera í stjórnarandstöðu og þess vegna tek ég það ekki til mín þegar hv. þm. Ásta Möller er að gera mér upp skoðanir og afstöðu í málinu. En þegar heilbrigðisþjónustuna ber á góma má segja að við stöndum frammi fyrir risavöxnu vandamáli sem stjórnvöld hafa ekki fengið fangs á svo ekki sé meira sagt.

Það eina sem er í lagi í heilbrigðisþjónustunni eru frábærir sérfræðingar og læknar sem geta veitt þjónustu sem tekur kannski öðru fram í öðrum löndum, eins og til að mynda hjartasérfræðingar okkar. Við þurfum að rannsaka heilbrigðisþjónustuna frá grunni og gera úttekt á henni enn á ný. Ég held, og ég hyggst leggja fram tillögu um það, að Tryggingastofnun ríkisins verði endurskoðuð í smáatriðum því að þar mun vera pottur brotinn svo ekki sé meira sagt.

Biðlistar lengjast og mér er sagt að á biðlista eftir til að mynda viðgerðum á mjöðmum séu 700--800 manns. Ég veit ekki nákvæma tölu en ég hef séð fólk þjást af þessum sökum. Ég spyr: Ef ég yrði gripinn þessari veiki og næði ekki að ganga upp á Valhúsahæð daglega, er ég þá skuldbundinn til þess að bíða í tvö ár eftir þessari viðgerð ef ég get kostað hana sjálfur ella flúið á önnur lönd til viðgerðar? Þetta ættu menn að athuga í þessu sambandi. Ég er ekki að mæla endilega með tveimur kerfum en við megum til með að hliðra til ef betur gengur með öðrum hætti en mál nú skipast því ekki veitir af að bæta úr.