Rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:09:33 (1622)

2001-11-15 14:09:33# 127. lþ. 30.8 fundur 46. mál: #A rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sjálfstæðismanna, hv. þm. Drífu Hjartardóttur o.fl., sem hafa lagt fram þessa tillögu. Ég held að þetta sé atriði sem við þurfum að gefa meiri gaum hér á Íslandi og kannski þó fyrr hefði verið.

Ég hef aðeins kynnt mér þessa umræðu eins og hún hefur verið í Svíþjóð og ég veit að þar er talið að til sé fólk sem er miklu næmara fyrir áhrifum rafseguls en annað. Þetta sé sem sagt mjög einstaklingsbundið. Og einstaklingar hafa fundist sem eru svo illa haldnir að þeir geta bókstaflega ekki lifað eðlilegu lífi við þær aðstæður sem við erum með á venjulegum heimilum í dag. Dæmi eru um að fólk hafi flutt út í skerjagarðinn og búið þar með kolaeldavél og olíuljós því það þolir ekki rafmagn. Þetta er náttúrlega mjög sjaldgæft en þeir einstaklingar eru til sem þola illa rafsegul.

Í Svíþjóð er mjög algengt að sérfræðingar séu fengnir á vinnustaði til að mæla rafsegulsvið ef fólk telur sig finna til óþæginda á vinnustaðnum, telur sig finna fyrir óþægindum sem það heldur að sé af þessum völdum. Ég veit að það hefur oft komið í ljós við slíkar rannsóknir að þetta hefur átt við rök að styðjast. Þarna hafa verið einhver rafmagnstæki sem hafa gefið frá sér óeðlilega háan straum eða rafsegulsvið.

Ég hef heyrt getgátur um það hér á landi, ekki bara erlendis, að á ákveðnum stöðum hafi komið í ljós að í nágrenni við spennistöðvar í bæjum hafi komið upp krabbameinstilfelli hjá börnum. En þetta er alltaf eins og allt hér á Íslandi, við erum svo fá og það er svo erfitt að benda á og segja eitthvað ákveðið. Þó að kannski þrjú börn í sömu götu hafi veikst á einhverju árabili, þá er svo erfitt að sýna tölfræðilega fram á að eitthvað sé af völdum t.d. spennistöðva sem standa í götunni, vegna þess að fámennið er svo mikið.

Og þannig er það með faraldsfræðilegar rannsóknir á Íslandi, þær verða að ná yfir óskaplega langan tíma til að gefa niðurstöður sem eru marktækar út af fámenni.

Þess vegna vil ég leggja til og hefði gjarnan viljað að það væri innifalið í þessari ágætu tillögu --- því mundi kannski vera bætt við hana í nefndinni ef hún yrði samþykkt --- að þangað til þeirri faraldsfræðilegu rannsókn sem hér er gert ráð fyrir muni ljúka, væru gefin út einhver viðmið sem slíkur rafsegulstyrkur mætti vera og ekki fara yfir. Og það væri ekki eins og nú er að hægt er að setja upp stöðvar nánast hvar sem er þar sem kannski fullt af börnum dvelur langdvölum í nágrenninu. Það væru sem sé sett ákveðin viðmið sem farið væri eftir, alla vega þangað til sú rannsókn sem hér er gert ráð fyrir gefur niðurstöður, vegna þess að ,,hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu`` var nú einu sinni ort og við erum nú ákaflega svipaðrar gerðar, hvort sem við erum í Bretlandi, eins og hér var vitnað til breskra rannsókna, eða á Íslandi. Niðurstöður sem hafa fengist í breskum rannsóknum ættu því að geta dugað nokkuð hér á landi. En að öðru leyti er ég mjög hlynnt tillögunni og vona að hún fáist afgreitt í hv. heilbrn.