Yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:41:27 (1627)

2001-11-15 14:41:27# 127. lþ. 30.95 fundur 146#B yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða# (umræður utan dagskrár), KVM
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:41]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Þegar Alþingi ákvað að breyta lögum um Orkubú Vestfjarða þannig að það yrði hlutafélag þá sáum við jafnaðarmenn jákvæðar hliðar á því máli. Við teljum eðlilegt að sveitarfélög hafi fullan ráðstöfunarétt yfir eigum sínum. Orkubú Vestfjarða er nú orðið að hlutafélagi og ríkið hefur keypt hlut næstum allra sveitarfélaganna í því. Herra forseti. Þau viðskipti eru langt frá því að vera eðlileg því flestum sveitarfélögunum er gert að hafa inni á lokuðum reikningum stóran hluta andvirðisins, vegna skulda í félagslega íbúðakerfinu. En það er hins vegar víðar en á Vestfjörðum sem sveitarfélög glíma við slíkar skuldir. Þennan vanda ber að leysa á landsvísu en ekki með þeim hætti sem fjmrn. ætlar sér nú.

Við þekkjum, herra forseti, hvílíkri útreið landsbyggðin hefur orðið fyrir vegna fálmkenndra og ómarkvissra aðgerða í byggðamálum í landinu. Markmið byggðaáætlunar, sem Alþingi samþykkti, hafa í fáum atriðum náðst. Fólksflóttinn af landsbyggðinni er geigvænlegur og þær íbúðir sem voru í félagslega kerfinu tæmdust og hafa margar þeirra lengi staðið tómar. Tekjurnar sem sveitarfélögin fengu af þessu fólki hurfu þegar það flutti og fór annað. En um leið uxu lánskjaravísitöluskuldir sveitarfélaganna margfaldlega vegna þessara tómu íbúða. Í stað þess að snúa vörn í sókn með hinum vestfirsku sveitarfélögum og treysta íbúunum til þess að nota fjármuni sína við eflingu byggðanna hefur fjmrn. sýnt ólíðandi framkomu sem birtist hvað gerst í því er fjármunir sveitarfélaganna eru bundnir. Það á jafnvel einnig um fé þeirra sem nú þegar standa í fullum skilum.