Yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:45:33 (1629)

2001-11-15 14:45:33# 127. lþ. 30.95 fundur 146#B yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig gott að sú yfirlýsing skyldi koma hér fram hjá hæstv. félmrh. Páli Péturssyni að vandinn í félagslega kerfinu skuli verða leystur á landsvísu.

Mér er hins vegar spurn hvort einhverjir sambærilegir eignasölusamningar séu í farvatninu hjá öðrum sveitarfélögum þar sem greiðslukvöð fylgir til ríkisins eins og Vestfirðingum var sett varðandi orkubúið.

Það er auðvitað ljóst að það vantar fé á fjárlögum inn í félagslega íbúðakerfið. Þann vanda sem skapast hefur í fjölmörgum sveitarfélögum, þar sem fólki hefur fækkað og notkun fallið niður á félagslegum íbúðum, verður að leysa á landsvísu. Þess vegna fagna ég því ef nú er orðið samkomulag um að sá vandi skuli leystur yfir landið allt. En þá spyr ég: Hvers vegna er þá verið að setja fé á biðreikning?