Yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:56:11 (1634)

2001-11-15 14:56:11# 127. lþ. 30.95 fundur 146#B yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:56]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Öndvert við hv. framsögumann er ég óánægður með þennan samning af annarri ástæðu. Verðið er allt of hátt. Ég hef séð verðmat á þessu fyrirtæki sem er miklu lægra, 1/4 af þessu verði. Ríkið er að borga 2.000 milljónum of mikið fyrir þetta fyrirtæki. Það eru sjö þúsund krónur á hvern einasta Íslending. Það eru 200 þús. kr. á hvern einasta Vestfirðing.

Ég hef miklar áhyggjur af þessu fyrir hönd skattgreiðenda, herra forseti, fyrir svo utan að þetta er ríkisvæðing á meðan menn eru að reyna að einkavæða. Þetta er ríkisvæðing á of háu verði, herra forseti.

Við erum að leysa vanda sveitarfélaganna, eins og hér hefur komið fram, vegna félagslegra íbúða, vegna kaupskyldu sveitarfélaganna. Sum sveitarfélög byggðu félagslegar íbúðir glannalega vegna þrýstings frá þáv. hæstv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, sem vildi koma á félagslegum íbúðum úti um allt. Og sum þeirra gerðu það til að örva atvinnu í viðkomandi sveitarfélagi. Önnur voru ekki svo glannaleg og þau standa vel í dag. Síðan kemur til mikil fækkun íbúa sem menn geta að sjálfsögðu ekki gert við.

Þetta er ástæða vandans og þess vegna eru menn að leysa hann með þessum hætti. Ég er ekki ánægður með svona sértækar lausnir, sérstaklega ekki þegar verið er að eyða miklu fé frá skattgreiðendum. Ég skora á hæstv. núv. félmrh. að flýta vinnu við að finna altæka lausn sem tekur á vanda sveitarfélaga um allt land, ekki bara á Vestfjörðum, því að vandinn er ekki síðri á Austfjörðum og á Norðausturlandi.