Skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:55:27 (1868)

2001-11-21 13:55:27# 127. lþ. 33.4 fundur 205. mál: #A skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að vekja athygli á þessari skýrslu sem er bráðmerkileg. Það kom fram á ráðstefnu sem Ferðamálaráð stóð fyrir á Hvolsvelli 18. október sl. að hér væri um ákveðinn grunn að ræða, umræðugrundvöll um ferðaþjónustu óháð landshlutum. Þar kom einnig fram þetta með menningartengda ferðaþjónustu, heilsutengda ferðaþjónustu og síðan hina hefðbundnu ferðaþjónustu sem byggir á landkostum og þeirri þjónustu sem fyrir er.

Auðvitað eru margir viðkvæmir fyrir hönd ákveðinna landshluta. Þar kom t.d. fram, á ráðstefnunni á Hvolsvelli, að ekki væri mikið talað um hið merka byggðasafn í Skógum o.s.frv. En í útskýringum kom fram að verið er að vekja athygli á þessum svæðum og því sem er að gerast. Í raun og veru finnst mér mjög eðlilegt að höfuðborgarsvæðið sé undir einum hatti vegna þess að þegar við horfum t.d. á Kaupmannahöfn, sem skiptist í ýmsa borgarhluta, Lyngby og Charlottenlund o.s.frv., þá er það mjög eðlilegt að talað sé um þessi svæði sem eina heild. Þess vegna held ég að menn séu til þess að gera of viðkvæmir fyrir skýrslunni.