Aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:22:17 (2282)

2001-12-03 15:22:17# 127. lþ. 41.94 fundur 191#B aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er aldeilis að það þarf að grípa til málsins þegar verja á einstök og sérstök gæluverkefni þessarar ríkisstjórnar, m.a. það fjármagn sem einkavæðingarnefnd fær til að leika sér að og spila úr. Þá þarf ekki minna til en hæstv. forseti taki upp langan lestur og lesi yfir þingmönnum lög en sleppi þó úr veigamiklum köflum.

Herra forseti. Þetta erindi frá hv. fjárln. um að fá upplýsingar um ráðstöfun á þessu gæluverkefnafjármagni til einkavæðingar var eðlileg spurning. Þarna eru 300 millj. kr. á fjáraukalögum --- og við erum að tala um niðurskurð --- að viðbættum einum 15--16 millj. á fjárlögum. Hvað er eðlilegra en spyrja: Hvernig var þessu fé ráðstafað eða hvernig er ætlunin að ráðstafa þessu fé?

Herra forseti. Það er ekki einu sinni búið að samþykkja ráðstöfun þessa fjár hér. Samt geta menn verið hér uppi, hv. þingmenn og hæstv. forseti haldið því fram að ekki megi veita aðgang að upplýsingum um þetta mál. Það er ekki enn búið að samþykkja það.

Líklega er búið að skuldbinda ríkissjóð með greiðslu á þessu fjármagni og þessi mikla viðkvæmni sem hér er varðandi þessar upplýsingar er afar ósanngjörn og röng gagnvart Alþingi. Í 4. gr. reglna um meðferð erinda til þingnefnda segir, með leyfi forseta:

,,Þingnefnd getur ákveðið, að ósk sendanda erindis eða að eigin frumkvæði, að farið skuli með erindi að öllu leyti eða að hluta sem trúnaðarmál.`` Og hér er ekki verið að draga þingnefndir í dilka. ,,Ætíð skal þó farið með erindi sem trúnaðarmál ef það varðar einkahagi manna ...``

Herra forseti. Það er skýrt kveðið á um það að einstaka þingnefndir geti tekið fyrir mál sem trúnaðarmál en í þessu tilviki ætti það að vera fullkomlega óþarfi því að þetta ætti allt að liggja á borðum uppi.