Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 18:03:25 (2333)

2001-12-03 18:03:25# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn ágreiningur um að fjölmörg ráðuneyti eru mjög viðamikil, og í mörg horn að líta fyrir ráðherra. Ég sat í því ráðuneytinu sem þá var umfangsmest, og er raunar enn í dag, heilbrrn. Ég svaraði hér fjölmörgum spurningum þingmanna á sinni tíð. Það lá auðvitað í augum uppi að það var á ábyrgð ráðherrans að gaumgæfa þau svör sem hann fær hverju sinni og ganga þá eftir nánari upplýsingum ef hann er ekki ánægður með svörin sem undirmenn hans bera á borð fyrir hann. Það er auðvitað skylda ráðherrans hverju sinni.

Mér hefur fundist vanta talsvert upp á að ráðherrar þessarar ríkisstjórnar geri það. Það getur hins vegar enginn ætlast til þess að ráðherrar hverju sinni séu alvitrir og að ekkert fari fram hjá þeirra vökulu augum. Auðvitað eru hv. þm. hverju sinni opnir fyrir því og viðurkenna þá staðreynd að ráðherrum getur skjöplast eins og hverjum öðrum. Þá er einnig hægt að plata eins og frægt er. Hæstv. þáv. forsrh. sagði opinskátt frá því er hann var plataður í stóru máli fyrir einhverjum áratugum og varð maður að meiri. Þannig er það.

Kjarni málsins er eftir sem áður sá að hin formlega ábyrgð er ráðherrans og getur aldrei orðið neinna annarra. Ráðherrann verður auðvitað að upplifa þessa ábyrgð sjálfur og á því ekki að byrja ræður sínar eða svör í þessum ræðustól með því að vísa ábyrgðinni frá sér. Það er það sem ég er að gagnrýna.