Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 19:19:47 (2359)

2001-12-03 19:19:47# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), EMS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[19:19]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að halda örlítið áfram þeirri orðræðu sem hér hefur átt sér stað en, virðulegi forseti, ég mun stytta mál mitt mjög.

Þetta snýst eingöngu um það sem stendur að hv. þm. Halldór Blöndal ræðir um það að minnihlutaálit í fjárln. hafi ekki verið komið fram og hann hafi aflað sér upplýsinga um að það væri hugsanlega ekki á leiðinni. Það skal upplýst hér, þannig að málið sé sem gleggst fyrir hv. þingmenn, að strax í morgun hafði ég samband við nefndadeild og minntist á að því miður yrði einhver dráttur á nefndaráliti okkar af þeirri einföldu ástæðu að ég þyrfti að fara hér í umræðu um störf þingsins og fá ákveðnar upplýsingar og reyna að fá betri svör frá forsrn. varðandi mál sem hér hefur nokkuð verið rætt um. Þess vegna er álit 1. minni hluta í fjárln. ekki enn tilbúið, þ.e. vegna þess að enn er verið að leita leiða til að fá þær upplýsingar sem við teljum nauðsynlegar til þess að hægt sé að hefja 3. umr. um fjáraukalög á morgun. Ég vonast að sjálfsögðu eftir því að það takist en þetta er skýringin á því að minnihlutaálitið var ekki tilbúið þegar hv. þm. leitaði eftir því, ekki að það væri ekki á leiðinni neitt álit frá minni hlutanum. Hér hefur komið fram að það voru gerðar athugasemdir og óskað eftir ákveðnum upplýsingum sem yrðu tilbúnar áður en 3. umr. hæfist þrátt fyrir það að meiri hluti fjárln. hafi afgreitt málið úr nefndinni, ekki með atkvæðum minni hlutans heldur eingöngu með atkvæðum meiri hlutans eins og alsiða hefur verið í þeirri nefnd frá því að ég hóf þar störf.