Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 15:57:00 (2415)

2001-12-04 15:57:00# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[15:57]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér, með leyfi þínu, að vitna beint í greinargerð sem hér hefur verið flutt af hv. þm.:

,,Að mati 2. minni hluta væri miklu nær að ríkið léti þessa fjármuni ganga beint til sveitarfélagsins eða styddi það á annan hátt þannig að það héldi sinni veitu.``

Hvað er þetta annað en bein jólagjöf? Það er ekki hægt að lesa annað út úr þessu en að veita eigi hér einu sveitarfélagi 300 millj. kr. beint og gera ekkert fyrir aðra.

Eins og ég segi, það er alveg með ólíkindum hvernig Vinstri hreyfingin -- grænt framboð getur komið hér fram með tillögur sem eru algjörlega út í hött, eingöngu til þess fallnar að gera hosur sínar grænar í viðkomandi sveitarfélagi. Mér finnst þessi markaðshyggja Vinstri grænna ansi dýru verði keypt, að ríkissjóður þurfi að borga 300 millj. fyrir þessa markaðssetningu Vinstri grænna í viðkomandi sveitarfélagi.

Ég stóð í því sjálfur, herra forseti, sem gamall bæjarfulltrúi að við neyddumst til að selja veitur okkar á Siglufirði þegar við vorum komin í ansi mikil skuldamál. Ég held að sú ráðstöfun hafi ekki reynst sérlega slæm. Ég segi það bara, og mun koma að því betur á eftir, að samskiptin við Rarik hafa verið sérstaklega góð og ég vænti þess að Rarik muni starfa jafn vel í Skagafirði og sinna Skagfirðingum jafn vel og þeir hafa gert við Siglufjörð eftir að þeir keyptu veiturnar þar.

Herra forseti. Bara rétt í lokin. Mér kom þetta svo á óvart að ég gat ekki annað en komið hér upp í stutt andsvar. Ég ætla samt að ræða þetta betur á eftir. Mér finnst þessi stefna í orkumálum sveitarfélaga með ólíkindum, alveg sama hvort það er að banna meiri hluta sveitarstjórnar Skagafjarðar að selja eignir sínar eða það að hvetja sveitarfélög til að vera ekki með ljósastaura í þéttbýlinu til að lýsa upp götur og annað slíkt vegna þess að það geti skyggt á himintungl og stjörnur í grennd við viðkomandi sveitarfélög. Herra forseti. Þetta er alveg með ólíkindum.