Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 19:21:33 (2455)

2001-12-04 19:21:33# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[19:21]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski alveg ástæðulaust að vera að hengja sig hér í formsatriði vegna þessa máls. Ég gat hins vegar ekki annað vegna þess að hv. þm. hefur með réttu gagnrýnt stjórnarherrana fyrir það hvernig þeir umgangast fjárlög og nota fjáraukalög í allt of ríkum mæli. Það er alveg hárrétt hjá honum. Þess vegna gat ég ekki stillt mig um að benda honum á að hann væri fallinn í sama pyttinn.

Það getur vel verið að það hafi átt við í vor þegar hann flutti þetta frv., þegar sex eða sjö mánuðir voru eftir af fjárhagsárinu, en það á bara ekki við að flytja tillögur af þessum toga sem hér um ræðir núna 4. desember, til nýrra útgjalda upp á 1 milljarð kr.

Það hefði nægt, hefðu tillöguflytjendur viljað koma sjónarmiðum sínum hér á framfæri, að leggjast gegn því, sem eðlilegra hefði verið, að þessi heimild til Rariks yrði hækkuð um 300 milljónir. En þessi opna tillaga um 1 milljarð kr. er formlega, finnst mér, ekki rétt fram komin. Eðlilegra og skynsamlegra hefði verið að finna henni stað í fjárlögum sem verða afgreidd á næstu dögum. En þetta eru aukaatriði málsins.

Aðeins um málið almennt, án þess að detta niður í harðvítugar deilur sem staðið hafa yfir um þau efni, þá er skoðun mín sú að menn hafi ekki mjög góða reynslu af því að veita hundruð millj. kr., hvað þá milljarða, til styrkingar sveitarfélögum, t.d. byggða á Vestfjörðum, og láta síðan einstökum fagráðherrum eftir að úthluta úr sjóðnum. Út á það gengur einmitt tillagan sem fyrir liggur.

Ég verð að segja eins og er, í ljósi reynslunnar, herra forseti, að ég ber ekkert sérstakt traust til þess að hæstv. félmrh. deili úr milljarðspotti til hinna og þessara sveitarfélaga á landinu sem þurfa að koma til hans og sanna á sig fáækt. Ég hef miklar efasemdir um þá nálgun mála þó að ég deili áhyggjum hv. þingmanna af afleitri stöðu fjölmargra sveitarfélaga.