Atkvæðagreiðsla við 3. umr. fjárlaga

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 13:33:39 (2896)

2001-12-11 13:33:39# 127. lþ. 48.91 fundur 217#B atkvæðagreiðsla við 3. umr. fjárlaga# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins. Síðasta laugardag fóru fram margar atkvæðagreiðslur í þinginu, m.a. um skattapakka ríkisstjórnarinnar og fjárlög. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá skrifstofu þingsins voru atkvæðagreiðslur um 150 og stóðu þær samtals í nálega þrjár klukkustundir.

Því miður er það svo þegar málum er hraðað í gegnum þingið eins og gerðist á síðustu dögum nú fyrir jól að hætta er á að eitthvað fari úrskeiðis. Sú varð því miður raunin sl. laugardag. Það hefur verið venja, þann stutta tíma sem ég hef verið hér, við langar og flóknar atkvæðagreiðslur að starfsmenn þingsins fái lista frá þingmönnum fyrir fram um hvernig þeir óska eftir að skipta brtt. eða greinum upp við atkvæðagreiðsluna og um aðra tilhögun hennar til að flýta fyrir og aðstoða þannig forseta við störf sín. Þetta hefur yfirleitt gengið vel og gefist vel.

Síðasta laugardag skolaðist hins vegar eitthvað til því að óskir okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs komust ekki áleiðis í tveimur tilfellum, annars vegar þegar bornar voru upp brtt. á þskj. 476, 15.--16. tölul., sem við höfðum beðið um að skipt yrði upp þannig að fram kæmi stuðningur okkar við aukin framlög til Ríkisútvarpsins og hins vegar var ætlun okkar að styðja 63. tölul. á sama skjali, þskj. 476, markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu, en greiða atkvæði gegn 64. lið þar sem áformuð er lækkun á nýframkvæmdum Vegagerðarinnar.

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til að koma þessu á framfæri hér úr því að svona tókst til í atkvæðagreiðslunni sl. laugardag til þess að afstaða okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til þessara efnisatriða liggi ljós fyrir.