Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:59:38 (3005)

2001-12-11 19:59:38# 127. lþ. 49.7 fundur 320. mál: #A gjald af áfengi# (tóbaksgjald) frv. 149/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. segir: Auðvitað er alltaf hægt að hækka tóbaksgjaldið. Ég tek undir með honum í því efni og ég spyr hæstv. ráðherra: Af hverju hækkum við þá ekki tóbakið núna og notum þá hækkun til þess að falla frá öðrum hækkunum, fyrst og fremst á skólagjöldum?

[20:00]

Herra forseti. Það hefur stundum áður gerst að við höfum rætt þessi mál á hinu háa Alþingi. Þar hafa menn reifað þann möguleika að reyna að draga úr tóbaksneyslu, fyrst og fremst ungmenna, með því að hækka verð á tóbaksvörum. Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum tók hæstv. fjmrh. tiltölulega vel í slíkar hugmyndir. Á þeim tíma var hins vegar ekki hægt að ráðast í slíkar breytingar vegna þess að talið var að það hefði óæskileg áhrif til hækkunar á verðlagi, þar með mundu lán allra landsmanna hækka og þar með væri líka ljóst að af því yrðu ákveðin áhrif sem ekki væru æskileg.

Við ræddum við það tækifæri, man ég, möguleikann á að taka tóbaksvarning út úr vísitölunni. Það var fallið frá því vegna þess að talið var að það drægi mjög úr tiltrú á okkur erlendis.

Nú vill svo til, herra forseti, að verið er að gera aðrar breytingar sem leiða til hækkunar á vísitölunni, sem leiða til aukinnar verðbólgu. Það vill svo til, herra forseti, að við höfum mælingar á þessu í efh.- og viðskn. Þess vegna segi ég: Nákvæmlega núna er tilefni til að hætta við að hækka skólagjöld sem hafa verðbólguhvetjandi áhrif og hækka í staðinn tóbaksgjaldið. Við höfum tækifærið núna og það rennur okkur úr greipum á morgun eða hinn. Þess vegna segi ég: Þetta er pólitísk ákvörðun og ríkisstjórnin og hæstv. fjmrh. tóku pólitíska ákvörðun um að nota ekki þetta tilefni til að falla frá skólagjöldum en hækka í staðinn tóbak. Það sýnir forgangsröðunina.