Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 22:23:18 (3123)

2001-12-12 22:23:18# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[22:23]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðum um hvernig ætti að úthluta aflaheimildum í auðlindanefnd var einmitt farið yfir þennan þátt málsins, þ.e. hverjum átti að úthluta þessum atvinnuréttindum. Menn spurðu vissulega þessarar spurningar: Er eðlilegt að útgerðarmönnum einum séu afhent þessi réttindi? Það kerfi hefur lengi verið við lýði að sjómenn hafa að mörgu leyti verið verktakar hjá útgerðarmönnum. Þeir hafa róið upp á hlut. Og menn spurðu þegar verið var að úthluta þessum atvinnuréttindum: Hví skyldu þeir ekki ávinna sér rétt í þessum atvinnuréttindum þar sem þeir hafa aldrei verið beinir launamenn heldur róið upp á ákveðinn hlut og í raun tekið þátt í útgerðarkostnaði?

Virðulegi forseti. Ég held að ágætt væri ef hægt væri að koma einhverri ró á hv. þm. Hjálmar Árnason sem stóð nú að hluta til að áliti meiri hlutans. Hann treysti sér ekki til þess að fullu. Það væri ágætt ef hægt væri að halda einhverri ró á hv. þm.

Vegna spurningar hv. þm. um af hverju þessum réttindum var einvörðungu úthlutað til útgerðarmanna þá er dálítið erfitt að svara því vegna þess að rökin að baki því eru langt frá því að vera sjálfgefin. Þegar menn hugsa þetta til baka þá held ég að miklu skynsamlegra hefði verið að reyna að úthluta þessum réttindum öðruvísi. Og sagan greinir að miklu sterkari rök voru fyrir því að úthluta þessum atvinnuréttindum til fleiri en gert var í stað þess að úthluta þeim einvörðungu til útgerðarmanna.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er liðinn. Ég reyni kannski að útskýra þetta betur í síðara andsvari.