Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 16:33:39 (3221)

2001-12-13 16:33:39# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[16:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í umræðunni hefur komið fram að gjaldtakan á sjúkrahótelunum var frá áramótum til 1. okt., en var þá ekki heimil. Þannig er verið að hefja þessa gjaldtöku á ný þó að þetta sé ekki ný gjaldtaka. Það fer náttúrlega eftir því hvernig það er túlkað.

Hæstv. ráðherra talar um að þetta eigi ekki að vera sjúkrahúsvist. Ég vitna hér í mál hv. þm. Þuríðar Backman sem fór inn á sjúkrahótelið í gær. Það var eins og að koma inn á sjúkradeild á sjúkrahúsi að koma þar inn.

Hæstv. ráðherra segir að ekki verði komið á innritunargjöldum á sjúkrahús á meðan hann sé ráðherra. Ég fagna því og ég deili þeirri skoðun með honum. Ég tel að það eigi ekki að vera innritunargjöld á sjúkrahús. En ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra verði eilífur í starfi og óttast að þetta sé skref í áttina, þó hæstv. ráðherra muni ekki láta það yfir sig ganga.

Varðandi það að tillaga hafi borist frá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi um gjöld á sjúkrahúsum þá skal mig ekkert undra þótt þeir leggi það til meðan þrengt er að fjárhag Landspítala -- háskólasjúkrahúss eins og gert er núna í fjárlögum. Þeir leita allra leiða til að halda sjúkrahúsinu gangandi. En ég tek alveg undir með hæstv. ráðherra, ég mundi aldrei samþykkja innritunargjöld á sjúkrahúsum.

Varðandi þá útreikninga í dæmum sem ég var með hér þá voru það engin jaðardæmi. Þetta voru dæmi um algengar aðgerðir miðað við að fólk væri ekki komið með afsláttarkort, en það öðlaðist afsláttarkortin í öllum dæmunum. Þetta eru engin jaðardæmi. Þetta eru algengar aðgerðir sem mjög margir þurfa að fara í: æðahnútaaðgerð, hnéaðgerð, kirtlataka, þetta eru aðgerðirnar. Hvaða jaðardæmi er hæstv. ráðherra að tala um?