Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:01:54 (3240)

2001-12-13 18:01:54# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:01]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Heilbr.- og trn. fékk til umsagnar frá efh.- og viðskn. 9. gr. frv. sem hér hefur verið mikið rædd um að fella sjúkrahótel undan skilgreiningunni á sjúkrahúsi. Meiri hluti nefndarinnar var samþykkur þessari breytingu og lagði til að 9. gr. yrði samþykkt óbreytt og nefndin lagði vegna þeirrar afstöðu áherslu á þrjú atriði. Í fyrsta lagi að með breytingunni þá fæst lagaheimild til að innheimta hóflegan fæðiskostnað --- hóflegan fæðiskostnað --- sem gert er ráð fyrir að nemi 700 kr. á dag og með því yrðu tekin af öll tvímæli um að slík innheimta sé heimil, en eins og hér hefur komið fram í umræðunni þá hefur þetta gjald verið innheimt frá 1. janúar á þessu ári.

Meiri hlutinn lagði í öðru lagi áherslu á mikilvægi þeirrar þjónustu sem sjúkraheimili eða sjúkrahótel veita og að sú breyting að fella sjúkrahótelin undan skilgreiningunni muni á engan hátt draga úr eða skerða þá þjónustu sem þar er veitt.

Í þriðja lagi var lögð áhersla á það að ráðist yrði í endurskoðun á því hvað teljist sjúkrahúsþjónusta og mótuð heildarstefna til framtíðar um það hvaða þjónustu skuli veita inni á eiginlegum sjúkrahúsum og hvað sé betur komið utan þeirra.

Meiri hlutinn leit svo á að breytingin sem frv. leggur til sé skref í rétta átt enda fari inni á sjúkrahótelum ekki fram nein eiginleg sjúkrahússtarfsemi en þau séu hins vegar mjög mikilvæg þjónustuform fyrir þá sem eru að jafna sig eftir sjúkrahúsvist eða þurfa að sækja þjónustu þangað. Lögð var áhersla á að rekstur sjúkrahótela sé mjög mikilvægur liður í heilbrigðisþjónustunni.

Sjúkrahótel Rauða krossins fær greidd daggjöld fyrir sem nemur 28 rýmum, en hefur jafnframt leyfi frá heilbr.- og trmrn. fyrir starfsemi fyrir allt að 50 rýmum. Og kostnaðinn af mismuninum, 22 plássum, hefur bæði Landspítali -- háskólasjúkrahús og Rauði krossinn borið, en ekki bara Rauði krossinn eins og segir í umsögn minni hlutans um þessa grein.

Mig langar að leiðrétta það sem segir í þessari skriflegu umsögn minni hlutans, að hjá fulltrúum landlæknis á fundi heilbr.- og trn. hafi komið fram að mun meiri þörf væri fyrir fleiri pláss á sjúkrahóteli Rauða krossins en þann fjölda sem þar væri til ráðstöfunar.

Ástæðan fyrir að mér finnst vert að taka þetta fram er líka sú að hv. þm. Þuríður Backman hefur beint þeirri fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmh. hversu mörgum sjúklingum hafi verið vísað frá gistingu á sjúkrahóteli Rauða krossins. Hið rétta er að samkvæmt upplýsingum frá landlækni fullnægir þetta framboð, eða 50 pláss, allri eftirspurn nema helst yfir sumarmánuðina þegar sjúkrahótelið að frátöldum 28 daggjaldaplássum er notað undir venjulegan hótelrekstur.

Í minnisblaði frá landlækni sem sent var í kjölfar fundar hans með nefndinni kemur fram að daginn sem minnisblaðið var skrifað, sem var 10. des., dvöldu aðeins 40 sjúklingar þar og að gistinætur í nóvember voru ekki nema um 1.230, sem gefur meðaltal upp á 41 rými.

Landlæknisembættið hefur líka upplýst að það sé algengt að 45 gistirými séu nýtt en sjaldgæft að öll 50 rýmin séu í notkun og það hafi engin biðlisti verið allt síðastliðið ár fyrir utan nokkra daga í apríl þegar var nokkurra daga bið vegna þess að þá var verið að taka hótelið undir þennan venjulega sumarrekstur.

Vegna þess sem hefur komið hér fram og segir líka í umsögn minni hlutans í heilbr.- og trn. að gjaldið bætist við umtalsvert hærri kostnað sjúklinga á landsbyggðinni og auki enn ójöfnuð, finnst mér vert að taka það skýrt fram að einungis er verið að ræða um að innheimta hóflegt fæðisgjald, matarkostnað sem sjúklingar ella þyrftu að leggja út fyrir heima hjá sér og líka það að sjúkrahótelunum er fyrst og fremst ætlað að vera til hagsbóta fyrir fólk af landsbyggðinni sem þarf að sækja heilbrigðisþjónustu til höfuðborgarinnar. En á tímabilinu 1. jan. til 30. nóv. nýttu alls 1.150 einstaklingar rýmin á sjúkrahótelinu og af þeim fjölda, 1.150, voru 724 af landsbyggðinni og 409 sem þar dvöldu komu af Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Í umsögn minni hluta heilbr.- og trn. varðandi þessa grein er því jafnframt slegið fram að ríkisstjórnin hafi aukið verulega álögur á krabbameinssjúklinga. Síðan er þar að finna stutta umfjöllun um sparnaðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar og slegið fram nokkrum fullyrðingum sem kalla á frekari skýringar.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur ítrekað í ræðu sinni hér og jafnframt í fjölmiðlum undanfarna daga sagt frá því að þakið, samanlagða fjárhæð lækniskostnaðar áður en kemur að afsláttarkorti, sé verið að hækka úr 6.000 í 18.000. En hún hefur haft svona heldur (ÁRJ: Nei. Þetta er rangt.) færri orð um sérregluna sem gildir um börn og ellilífeyrisþega.

Bæði, svo við höfum það sem rétt er, þá greiða einstaklingar úr þessum hópum, úr hópum barna og ellilífeyrisþega, aðeins um þriðjung af venjulegu gjaldi og þakið hjá elli- og örorkulífeyrisþegum er 4.500, ekki 18.000 kr. og fyrir börn, samanlagt börn í sömu fjölskyldu, 6.000, en ekki 18.000 kr.

Loks finnst mér vert að minna á það sem hv. þm. hefur ekki getið um, þ.e. endurgreiðslureglugerðina, reglur um endurgreiðslu á umtalsverðum útgjöldum sjúkratryggðra vegna læknishjálpar, lyfja og þjálfunar, sem þeir sem eru tekjulægstir, fátæka fólkið sem þingmaðurinn vísar gjarnan í, njóta góðs af. Sú reglugerð gerir ráð fyrir allt að því 90% endurgreiðslu sjúkrakostnaðar þegar þeir hópar eiga í hlut sem falla undir ákveðin tekjumörk.

En almenna reglan er sú að þegar samanlagður lækniskostnaður nær 18.000 kr. á ári fá menn afsláttarkort og eftir það greiðir hver og einn að jafnaði þriðjunginn af því sem hann greiddi áður en afsláttarþakinu er náð. Þetta þýðir t.d. að sjúklingur sem kominn er með afsláttarkort og sækir sérfræðilækni heim, sem rukkar samkvæmt gildandi gjaldskrá 10.800 kr., svo ég taki nú eitt dæmið, fyrir unnið læknisverk, greiðir lækninum 1.960 kr., en hefði án afsláttarkortsins greitt honum 5.400 kr. Mismuninn þarna á milli fær læknirinn greiddan frá Tryggingastofnun ríkisins.

Af því hér hafa verið nefndar í umræðunni, og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur oftar en einu sinni nefnt tilteknar aðgerðir eins og æðahnúta og hálskirla þá finnst mér sjálfsagt að hafa æðahnúta í huga varðandi annan sérhópinn, elli- og örorkulífeyrisþega. Ég reikna með að þeir hópar gangist oftar undir æðahnútaaðgerðir en alla vega hálskirtlatöku. Sú regla gildir varðandi þá að þeir greiða sjálfir að jafnaði mun minna fyrir læknisheimsókn en gengur og gerist eða almennt um þriðjung af venjulegu gjaldi. Þar fyrir utan er hámarksþak fyrir þennan hóp miklum mun lægra en almennt gerist. Hámarksþakið fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, eins og ég sagði, er með öðrum orðum 4.500 kr. en ekki 18.000.

Þetta þýðir þegar samanlagður lækniskostnaður elli- og örorkulífeyrisþega er kominn í 4.500 kr. á ári þá færi ellilífeyrisþeginn eða örorkulífeyrisþeginn afsláttarkort frá Tryggingastofnun ríkisins.

Ef við tökum dæmi af sérfræðilæknisheimsókn sem áður var miðað við þar sem heildarkostnaðurinn er 10.800 kr. þá greiðir elli- og örorkulífeyrisþeginn 1.960 kr. áður en hámarksþakinu er náð. En hann greiðir 600 kr. eftir að samanlagður lækniskostnaður er kominn í 4.500 kr. á árinu og viðkomandi er kominn með afsláttarkort. Í þessu tilviki greiðir Tryggingastofnun ríkisins þær 10.200 kr. sem eftir standa af reikningnum.

Þá skulum við líta á börnin, þar sem við getum sagt að hálskirtlarnir séu algengari aðgerð heldur en æðahnútarnir reikna ég með. En hlutur greiðslu barna fyrir læknisheimsóknir til sérfræðilæknis er þriðjungur af almennu gjaldi, alveg eins og reglan sem gildir um elli- og örorkulífeyrisþega. Ákvæðin um hámarksþökin eru hins vegar öðruvísi þar sem er miðað við samanlagðan lækniskostnað allra barna í sömu fjölskyldunni. Það er ekki verið að miða 6.000 kr. við hvert og eitt þeirra.

Þetta þýðir t.d. að þegar samanlagður lækniskostnaður tveggja barna er kominn í 6.000 kr. á árinu fær fjölskyldan afsláttarkort vegna lækniskostnaðar barnanna. Almennt gildir sem sé að þegar reikningur sérfræðilæknis vegna heimsókna barns er 10.800 kr. þá eru greiddar 1.960 kr. fyrir læknisheimsóknina. En þegar samanlagður lækniskostnaður barnanna á árinu er hins vegar kominn í 6.000 kr. og fjölskyldan hefur fengið afsláttarkort kostar sérfræðilæknisheimsóknin viðkomandi 600 kr. Hún kostar 600 kr., en Tryggingastofnun ríkisins greiðir lækninum afganginn, eða 10.200 kr.

Ég veit ekki hvort ástæða sé til að orðlengja þetta. En mig langar að ítreka það sem ég sagði áðan, að til viðbótar þessu fyrir þá sem eru tekjulægstir í samfélaginu gildir að auki reglugerðin um endurgreiðslu á umtalsverðum útgjöldum sjúkratryggðs vegna læknisheimsóknar, lyfja og þjálfunar og þar njóta þeir sem eru tekjulægstir endurgreiðslu sem getur numið allt að 90% af þeim kostnaði sem þetta hefur haft í för með sér.