Uppbygging og rekstur meðferðarstofnana

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 16:07:44 (2932)

2003-01-22 16:07:44# 128. lþ. 63.7 fundur 417. mál: #A uppbygging og rekstur meðferðarstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[16:07]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur farið fram. Það eru tvö, þrjú atriði sem ég vildi undirstrika. Í fyrsta lagi er mikil þörf á að þessi skoðun fari fram, að mínu mati. Það eru margir áhugamenn um áfengis- og vímuefnameðferð. Það er sjálfsprottið. Það hafa margir unnið mjög gott starf. Það er mikil þekking hér innan lands eins og komið hefur fram varðandi þessa málaflokka. Hins vegar eru aðilar í þessum geira ekki endilega sammála. Nokkuð er um skoðanaskipti og jafnvel deilur um hvernig standa á að málum. Þess vegna held ég að rétt sé að kalla erlendan aðila að málinu og fá álit hans þó að ég sé alls ekki, síður en svo, að kasta með því neinni rýrð á þá sem hafa unnið mjög gott starf að þessum málum innan lands. Það getur bara verið gott að fá, svo maður sletti, ,,second opinion`` frá erlendum aðila. Ég tel mikla þörf á því að ýta á eftir þessu máli og vona svo sannarlega að það kafni ekki í þeim skýrslum sem þegar hafa verið gerðar. Það er mikið til af skýrslum í ráðuneytinu um hina ýmsu málaflokka. Þetta er ekki eini málaflokkurinn sem svo er háttað um. Það er auðvitað nauðsynlegt að draga lærdóm af þeirri vinnu sem unnin hefur verið og ýta á eftir þessu máli. Ég er sammála því og mun gera mitt til þess.